Jónína Rós: Alltaf vonbrigði að ná ekki sættu markmiðið
Jónína Rós Guðmundsdóttir, sem um helgina varð í þriðja sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi segir það hafa vonbrigði að ná ekki settu marki sem var annað sætið. Næsta verk sé að berjast fyrir áframhaldandi stjórn jafnaðarmanna á Íslandi.
„Það eru alltaf vonbrigði að ná ekki settu marki,“ sagði Jónína í samtali við Austurfrétt. „Það vantaði líka sárlega lítið uppá, 23 atkvæði í 1. og 2. sæti hefðu hjálpað mér að ná markinu,“ segir hún.
Kristján Möller leiðir listann áfram og fékk yfirburðakosningu í fyrsta sætið en Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls kemur ný inn í annað sætið.
„Þetta er lýðræðisleg niðurstaða, henni hlíti ég og er ánægð með að eiga hana án nokkurra skuldbindinga.
Næst á dagskrá er að vinna að mínum hjartans málum í þinginu og síðan eftir áramót að berjast fyrir áframhaldandi stjórn jafnaðarmanna á Íslandi um leið og ég þurrka kannski rykið af meistararitgerðarskrifunum sem hafa legið undir pólitísku ryklagi síðan í febrúar 2009.“
Jónína var í þriðja sæti síðast en Samfylkingin fékk þá þrjá menn í kjördæminu. Sú kosning var nokkuð tæp því Jónína var inn og út af þingi á kosninganóttina. Fylgi flokksins á landsvísu hefur minnkað nokkuð frá kosningunum.
Hún telur samt góðar líkur á að flokkurinn geti haldið þingmönnunum þremur í Norðausturkjördæmi. „Við erum á blússandi siglingu í skoðanakönnunum allavega.“