Jónína Rós reiddist fulltrúum Fjarðabyggðar: Hnýttu í Öxi

jnna_rs_vefur.jpgJónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist hafa reiðst fulltrúum Fjarðabyggðar á nýafstöðnum fundi með fulltrúum austfirskra sveitarfélaga fyrir viðhorf þeirra til uppbyggingu Axarvegar.

 

„Mér fannst leiðinlegt að heyra að í Fjarðabyggð væru menn að hnýta í Öxi og ég varð bara reið og sagði að mér fyndist þessi umræða svæðinu ekki til hagsbóta,“ er haft eftir Jónínu í seinasta tölublaði Austurgluggans.

Austfirðingar með sína sveitarstjórnarmenn í fararbroddi hafa lengi tekist á um forgangsröðun í vegamálum. Heitustu kolin nú eru Norðfjarðargöng, lega Hringvegar, uppbygging Hringvegar og nýr vegur yfir Öxi.

„Norðfjarðargöng eru númer eitt í samgöngumálum en um leið ætlum við að huga að uppbyggingu Axarvegar. Það væri ekki til að auka samúð okkar með málstað Fjarðabyggðar ef að þeir ætluðu sér síðan að fara hnýta í næsta mann. Við tölum ekki niður aðrar samgönguframkvæmdir þó svo við ætlum að standa fast á okkar,“ sagði Jónína.

Í viðtalinu við vikublaðið gagnrýnir hún Tryggva Þór Herbertsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að hafa tekið undir þessa gagnrýni á Axarveg. Tryggvi neitar því að hafa tekið ákveðna afstöðu í málinu.

„Ég vildi bara benda á hve ósanngjörn staðan fyrir okkur þingmenn sé því öðru megin væri talað um að nauðsynlegt væri að fara í gegnum Öxi og að fulltrúar Fjarðabyggðar væru mjög ósanngjarnir og óbilgjarnir en á hinum staðnum væru Héraðsbúar sakaðir um sömu óbilgirni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar