Jódís gefur kost á sér í oddvitasæti VG
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í Norðausturkjördæmi hefur látið vita af því að hún hafi hug á að skipa fyrsta sæti framboðslistans í komandi þingkosningum. Hún segist undrandi á þeim málefnum sem ríkisstjórnarsamstarfið strandaði á.Jódís tók sæti á Alþingi að loknum kosningunum 2021. Hún hefur á kjörtímabilinu meðal annars verið varaformaður þingflokks VG.
Á fundi kjördæmisráðs VG á mánudagskvöld var skipuð uppstillingarnefnd fyrir kosningarnar 30. nóvember. Jódís segist hafa sett sig í samband við nefndina og látið vita að hún sæktist eftir oddvitasætinu. Hún segist treysta uppstillinganefndinni fyrir verkum sínum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra, var oddviti í síðustu kosningum. Hún hefur ekki gefið út hvort hún sækist eftir endurkjöri.
Háir vextir og húsnæðismál stærstu málin
Boðað var til kosninga í vikunni í kjölfar þess að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað á sunnudag að slíta ríkisstjórnarsamstarfi sínu við VG og Framsóknarflokkinn. Ljóst er að samstarfið hefur verið þungt lengi en ályktun á landsfundi VG, um að stjórnarsamstarfið væri að nálgast endapunkt og rétt væri að stefna að kosningum í vor frekar en næsta haust, hleypti illu blóði í Sjálfstæðisflokkinn.
„Mér fannst óábyrgt af forsætisráðherra að velja þessa leið. Það átti öllum að vera ljóst að það styttist í stjórnarsamstarfinu enda síðasti þingveturinn að hefjast og allir áttuðu sig á að samstarfið lifði ekki lengur en til kosninga.
Við í VG höfum lagt okkur fram um að sinna brýnum verkefnum. Fyrir þinginu lágu mál eins og samgönguáætlun og fjármálaáætlun sem eru af þeirri stærðargráðu að eðlilegt væri að við við myndum reyna að standa saman að þeim.
Ég hef ekki áttað mig á hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið útlendinga- og orkumál stærstu málin. Við höfum samþykkt tvö útlendingafrumvörp Sjálfstæðisflokksins og því kemur mér á óvart að talað sé um svik. Að mínu mati eru stóru málin sem þjóðin talar um efnahags- og húsnæðismálin, það er háir vextir, verðbólga, skólakerfið og húsnæðisskortur,“ svarar Jódís þegar hún er innt eftir viðbrögðum við endalokum ríkisstjórnarinnar.
Samtaka um að vinna að fjárlögum
VG átti þrjá ráðherra í ríkisstjórninni sem ákváðu að taka ekki þátt starfsstjórninni, sem starfar þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. „Við ákváðum að stíga til hliðar. Forsætisráðherra hefur sagt að ekki sé hægt að vinna með okkur en ætlar samt að stýra ríkistjórninni áfram. Það er ljóst að það eru ekkert eftir innan þingsins nema fjárlög. Það koma engin verkefni frá ráðuneytunum um stefnubreytingar. Þetta snýst bara um að skútan sigli sinn sjó þessar sex vikur.“
Jódís sigur í fjárlaganefnd og var að koma af fundi hennar þegar Austurfrétt ræddi við hana. Nefndin hefur nú fjárlög 2025 til meðferðar en umsagnarfrestur um þau rann út í síðustu viku. Í samtali við Austurfrétt í gær sagðist Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og formaður nefndarinnar, skynja að þingmenn teldu sig bera ábyrgð á að samþykkja fjárlögin til að tryggja samfellu í rekstri ríkisins.
„Ég tek undir það. Ég skynja það bæði innan nefndarinnar og á vettvangi þingflokksformanna að við, öll óháð flokkum, ætlum að leggja okkur fram eins og við getum við fjárlögin. Við fundum áfram á næstunni,“ segir Jódís.
Trú á að fylgið komi til baka
Skoðanakannanir hafa sýnt að tvísýnt verður hvort VG nái yfir höfuð þingmönnum. Það gildir um Norðausturkjördæmi sem önnur. „Við erum í alvarlegri stöðu og það er mat okkar að við hefðum ekki getað breytt henni í áframhaldandi stjórnarsamstarfi.
Ég finn mikinn hug í okkar fólki. Við erum nýkomin af fjölmennum og öflugum landsfundi þar sem kallað var eftir sterkari vinstri stefnu og meiri róttækni. Í þessum könnunum mælumst við þó sterk í Norðausturkjördæmi og ég held við eigum mikið inni.
Kosningabaráttan byrjar núna. Við stöndum fyrir öflugri vinstri stefnu, náttúruvernd, kvenréttindum, friðarstefnu og félagslegu réttlæti. Ég heyri frá fólki sem er á þessari línu en hefur verið ósátt við ríkisstjórnarsamstarfið. Ég hef trú á að við heimtum marga okkar kjósendur til baka.“
Aðspurð um næstu ríkisstjórn svarar Jódís: „Ég myndi vilja sjá sterka vinstri – miðju stjórn. Ég held það sé kominn tími á að ákveðin hugmyndafræði fái örlítið frí og mér heyrist margir sammála því.“