Jódís heldur ekki áfram á Alþingi
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, verður ekki í einu af efstu sætum listans fyrir þingkosningarnar þann 30. nóvember.Í samtali við Austurfrétt í vikunni skýrði Jódís frá því að hún hefði ákveðið að sækjast eftir oddvitasætinu í kjördæminu. Þá hafði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, oddviti flokksins í síðustu kosningum, ekkert gefið út formlega en fyrr í dag sagðist hún hætt á þingi.
Í færslu í kvöld skýrði Jódís frá því að í dag hefði orðið ljóst að hún fengi ekki oddvitasætið, en uppstillingarnefnd raðar upp á listann. Þar segist Jódís í kjölfarið hafa hafnað því að taka sæti ofar en hið fimmta. Þar með er ljóst að báðir þingmenn VG í kjördæminu hætta.
Jódís segist hafa verið tilbúin að taka slaginn sem oddviti kjördæmisins en annars meti hún það meira að geta varið tíma með fjölskyldunni. Hún kveðst áfram styðja VG og trúa á stefnuna. Þess vegna sé það henni heiður að taka sæti neðar á listanum og styðja félaga sína til góða verka. Hún útilokar heldur ekki að bjóða sig fram síðar þegar börn hennar verða orðin eldri og aðstæður auðveldari.
Jódís tók sæti á Alþingi að loknum kosningunum 2021 þar sem hún kom inn við lok talningar sem jöfnunarþingmaður. Hún segir tímann á þinginu hafa verið áhugaverðan, hún fengið að kynnast fólki og aðstæðum. „Það er mjög margt sem mér finnst um íslenska stjórnskipan og hvernig fólk í valdastöðum umgengst til dæmis þingræðið. Það sem skortir mest á Alþingi Íslendinga er auðmýkt,“ skrifar hún.
Tvær vikur eru síðan Jódís bauð sig fram gegn þá starfandi formanni, Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem varaformaður VG. Guðmundur Ingi hafði betur með 145 atkvæðum gegn 27. Hún bauð sig síðan fram með meðstjórnandi í stjórn flokksins en endaði í varastjórn.
„Það er líklega einhvers konar met að vera hafnað af sínu eigin stjórnmálaafli tvisvar í sama mánuði og eftirspurnin eftir mér virðist talsvert meiri meðal almennings en innan VG,“ skrifar Jódís í yfirlýsingu sinni.
Gert er ráð fyrir að uppstillingarnefnd leggi tillögur sínar um framboðslista fyrir kjördæmisþing næsta laugardag.