Jón Loftsson: Ekki einfalt að flytja Skógræktina austur

Jón Loftsson lét af embætti skógræktarstjóra um síðustu áramót vegna aldurs og þakkar fyrir sig með mikilli skógræktarráðstefnu á morgun. Fyrsta verk hans í embætti fyrir 25 árum var að fylgja eftir ákvörðun Alþingis um að flytja aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins austur á Fljótsdalshérað.


Skógræktin var fyrsta ríkisstofnunum til að vera færð og enn sú sem lengst hefur farið. Þrátt fyrir árin sem liðin eru lýsir Jón flutningnum sem erfiðasta verkefninu sem hann hafi tekist á við sem skógræktarstjóri.

„Það var ekki einfalt mál að búa til alla þá innviði sem þurfti til að stýra skógræktarmálum Íslands héðan,“ segir Jón í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Fleira gekk á. Enginn starfsmaður flutti með stofnuninni. Þeir sem voru syðra voru margir að ljúka starfsævi sinni og gerðu það í sérverkefnum í syðra. Jón réði á móti nýtt fólk til starfa í Egilsstaði.

Skógræktarstjóranum var einnig ætlað að finna húsnæði undir höfuðstöðvarnar. Fyrst var leigt í kjallara Valaskjálfar en síðan keypt í Miðvangi 2-4 á Egilsstöðum þar sem skrifstofan hefur verið síðustu 20 ár. Þau kaup voru fjármögnuð með að selja eignir frá stofnuninni.

Jón telur flutninginn hafa tekist vel og það komi ríkisstofnun ekki illa að vera staðsett á landsbyggðinni, fjærri miðju stjórnsýslunnar í Reykjavík.

„Sama ár og við fluttum Skógræktina austur var norska skógræktin flutt frá Osló til Namsos í miðju Noregs og við fylgdumst að í þessari vegferð. Mér finnst hafa tekist vel til við að hafa stofnunina í „Mekka skógræktar landsins“.

Skógræktarstjórinn má hins vegar ekki vera flughræddur. Ætli ég sé ekki að jafnaði einu sinni í viku í Reykjavík. Maður hagar vinnunni eftir því. Maður situr í ýmsum stjórnum og nefndum og tekur þá fundi sem þarf saman á 1-2 dögum. Annars vinnur maður bara hér eystra með tölvu og síma eins og allir vinna með í dag. Með nútímatækni getur maður meira að segja verið til staðar á sjónvarpsskjá.

Fyrst og fremst snýst þetta um viðhorf. Það er frekar að stjórnsýslan fyrir sunnan sé sein að átta sig á möguleikunum. Stundum er hringt og spurt hvort maður geti mætt í fund í ráðuneytinu eftir hádegi en þá er vélin að austan farin.

Þótt menn menn séu orðnir sammála eftir símafundi þá er sjaldnast gengið frá neinu fyrr en ég kem suður. Sumir segja að ég hefði náð meiri árangri með því að sitja á göngunum í ráðuneytunum en ég er ekki sammála því.“

Það er Þröstur Eysteinsson sem lengi hefur unnið með Jóni. „Mér lýst mjög vel á Þröst. Hann hefur verið aðstoðarskógræktarstjóri frá því hann kom austur fyrir 20 árumgóður rannsóknarmaður og öflugur skógræktarmaður. Ég hef miklar væntingar til að vel takist til og vel sé skipað í sætið.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.