Jón Loftsson: Viðskiptin við Grundartanga breyta íslenskri skógrækt

Jón Loftsson, fráfarandi skógræktarstjóri, segir rekstrarumhverfi íslenskrar skógræktar hafa gerbreyst þegar Járnblendiverksmiðjan á Grundatanga hóf að kaupa innlendan grisjunarvið til orkunotkunar. Grisjun skóganna standi nú undir sér.


Eftir hrun vildu stjórnendur verksmiðjunnar skoða nýja orkugjafa og leituðu þá til Skógræktarinnar. Í fyrstu var samið um 1000 tonn sem reyndust skila verðmætari málmi. Eldri orkugjafa var þá skipt út og farið alveg yfir í timbur. Innlenda framleiðslan annar þó ekki eftirspurninni.

„Þeir hringdu og vildu fá 30 þúsund tonn. Það var eitthvað sem við áttum ekki en sögðumst geta samið um 5-6000 tonn á ári og eftir 30 ár væri kannski hægt að útvega 30 þúsund tonnin,“ útskýrir Jón í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Skógræktin hefur verið gagnrýnd fyrir að mikið af íslenskum við fari til kurlunar fremur en reyna að skapa úr henni verðmætari afurðir. Jón segir lítið hald í þeirri gagnrýni. „Þetta er grisjunarviður og aðeins 10% hans er hæfur í planka og borð. Það sem við getum tökum við út og sögum. Hvert einasta lerkitré sem fellt er á Hallormsstað er löngu pantað.

Staðreyndin er hins vegar sú að stærsti hluti af timburverslun heimsins er í formi kurls. Það er flutt frá Suður-Ameríku í pappírsverksmiðjur í Skandinavíu því menn sækjast eftir ákveðnum eiginleikum trjátegunda. Mest er malað í pappír, svo er það notað sem kolefnisgjafi í kísilmálm og undirburð fyrir húsdýr en aðeins lítill hluti verður að plönkum og borðum.“

Svigrúm fyrir einkaaðila

Fyrir viðskiptin við Járnblendiverksmiðjuna voru hins vegar fáir kaupendur af við úr fyrstu grisjun. „Hjá Skógræktinni höfðum við í mörg ár barist fyrir því hjá ráðuneytinu að fá pening til að grisja sem var forsenda þess að búa til alvöru skóga en fengum aldrei neina alvöru aura.

Þótt fjárveitingar til skógræktar hafi minnkað um helming hefur salan orðið til þess að við þurfum ekki krónu frá ríkinu til að fella og selja þennan grisjunarvið.“

Jón segir einnig að til sé að verða meira svigrúm fyrir einkaaðila til að hasla sér völl í úrvinnslu skógræktar heldur en áður. Vorið 2014 kom til landsins skógarhöggsvél og nú er unnið að því að byggja upp afurðastöð á bæ í Fljótsdal.

„Ef þú byrjar í sauðfjárrækt þarftu ekki að hafa áhyggjur af því að byggja upp sláturhús, vinnslu og sölu. Það er til staðar. Í skógræktinni þurfum við að byggja þetta allt upp frá grunni. Fyrir 15 árum sá ég ekki fram á að ég myndi ljúka starfsævinni í að vera á kafi í að semja við verktaka, díla við kaupendur og sjá til þess að þessi keðja sé öll fyrir hendi sem er gaman og spennandi.

Veruleiki en ekki draumsýn

Jón lét af störfum um áramótin vegna aldurs en í dag er haldin mikil skógræktarráðstefna á Egilsstöðum þar sem horft er á íslenska skógrækt 70 ár aftur í tímann og horft 70 ár fram í tímann. Ráðstefnan er kennd við tímavélina hans Jóns en það eru námskeið sem hann hélt fyrir bændur sem tóku þátt í Fljótsdalsáætluninni.

„Ég bauð öllum bændum í Fljótsdal í 10 ára afmælisteiti. Við byrjuðum í gróðrarstöðinni á Hallormsstað þar sem við vorum með litlar plöntur. Síðan fórum inn í Víðivallaskóg og skoðuðum plöntuna sem þá voru orðnar 10 ára, héldum áfram í skóginum á Hallormsstað og skoðuðum 20 30 og 50 ára skóg.

Við fórum yfir hvað var að gerast á hverjum tímabili í skóginum eins og að bila og grisja, og í Guttormslundi var verið að vinna timbur. Þá uppgötvuðu menn hvað var að gerast og þá breyttist viðhorfið.“

Viðhorfið er trúlega það sem mest hefur breyst á þeim 25 árum sem Jón hefur verið skógræktarstjóri. „Kannski er mesta breytingin að menn upplifi og skynji að þetta er ekki draumsýn heldur veruleiki. Það þarf til dæmis ansi marga bíla til að koma viðnum vestur á Grundartanga og þessa bíla sjá menn á þjóðvegum landsins.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.