Kalla eftir samtali um stöðu sjálfboðaliða

Forsvarsfólk Móður Jarðar sem rekur lífræna ræktun í Vallanesi á Fljótsdalshéraði kalla eftir samtali um hvað aukin viðurkenning á sjálfboðaliðavinnu við ýmis störf geti fyrir íslenskt þjóðfélag. AFL Starfsgreinafélag segir sjálfboðaliða sem notaðir séu í atvinnurekstri grafa undan kjörum launafólks.

Fyrirtækið og verkalýðsfélagið hafa staðið í deilum í rúm tvö ár eftir að fulltrúi AFLs ásamt fulltrúum Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra fóru í eftirlitsferð á búið í júní 2016. Ferðinni lauk á því að lögregla var kölluð til vegna gruns um brots á lögum um útlendinga sem leiddi til ákæru.

Fyrir rúmum mánuði kvað héraðsdómur Austurlands upp dóm þar sem Móðir Jörð var sýknuð af því að hafa brotið lög um atvinnuréttindi útlendinga með að nýta sér vinnu þriggja bandarískra ungmenna sem komu til landsins á vegnum samtakanna WWOOF sem útvega sjálfboðaliða til starfa á lífrænum búum.

Eftir að dómurinn féll sendi AFL frá sér yfirlýsingu þar sem segir að niðurstaða dómsins komi á óvart. Lögmenn félagsins sem og ákæruvaldið hafi talið lög sem voru í gildi til byrjun árs 2017 nógu skýr. Lögmenn AFLs telji hins vegar ný lög taka af allan vafa um að athæfið hafi verið saknæmt.

Vantar skilning á sjálfboðaliðastarfi

Þessu hafnar forsvarsfólk Vallaness, Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir í yfirlýsingu sem birt var á heimasíðu fyrirtækisins eftir dóminn. Þar halda þau því fram að dómurinn sé afdráttarlaus í afstöðu sinni um að ungmennin hafi ekki verið ráðin til starfa að því marki að til vinnusambands gæti stofnast.

Talsmenn verkalýðshreyfingarinnar skilji ekki samfélagslegan tilgang eða eðli sjálfboðaliðastarfs og geri ekki greinarmun á því og vinnusambandi. Þá útiloki þröng túlkun á lögunum að útlendingar taki þátt í fræðslu- og umhverfisverkefnum á Íslandi. Annars staðar í Evrópu sé ekki litið á samband við einstaklinga á vegum WWOOF sem vinnusamband og það sem stundað hafi verið í Vallanes sé viðurkennt í Evrópu.

Vera kunni að stjórnvöld þurfi að skerast í leikinn til að taka af allan vafa um hvaða sjálfboðaliðastarf sé Íslendingum þóknanlegt. Um það sé engin sérstaka löggjöf, eins og mörg lönd hafi og ekkert samtal hafi átt sér stað í þjóðfélaginu. Móðir Jörð hafi reynt að hafa frumkvæði að því og benda, meðal annars, ráðherra á leiðir til úrbóta.

„Við sjáum ekki á hvaða forsendum Íslandi ætti ekki að taka þátt í WWOOF eða öðrum álíka verkefnum sem á engan hátt geta skaðað íslenskan vinnumarkað heldur þvert á móti auðgað mannlíf og menningu auk þess að bæta umhverfið. Á þessum tímum er auk þess nauðsynlegt að deila reynslu og hvetja ungt fólk til að leggja fyrir sig sjálfbæra matvælaframleiðslu.“

Segja skattstjóra ekki hafa gert athugasemdir

Þá er í yfirlýsingunni bent á að ekkert hafi gefið starfsmönnum Ríkisskattstjóra tilefni til rannsóknar eða sérstakrar skoðunar né hafi þeir sent athugasemdir eða fyrirspurnir eftir á né álögur verið endurmetnar.

Fyrir dómi báru hins vegar tveir starfsmenn Ríkisskattstjóra að þeir hefðu í umræddri eftirlitsferð gefið forsvarsfólki Móður Jarðar munnleg tilmæli um að ekki væri í lagi að sjálfboðaliðar sinntu störfum sem tengdust rekstri og yrðu að vera á launum. Tilmælunum hafi verið fylgt eftir með tveimur eftirlitsferðum þar sem málin hefðu verið í lagi og ekki talin þörf að vísa málinu til frekari rannsóknar.

Grafið undan launafólki og samkeppni

Sem fyrr segir er tóninn í yfirlýsingu AFLs nokkur annar. Þar segir að sjálfboðaliðar sem nýttir séu í atvinnurekstri grafi undan kjörum launafólks og skapi fyrirtækjum ólögmætt forskot. Af verðmætasköpuninni sé ekki skilað inn sköttum og skyldum.

Ungmenni af millistétt sæki í störfum bæði vegna atvinnuleysis heima fyrir, því eftirsóknarvert sé að geta skráð atvinnuþátttöku á ferilskrána þótt hún sé ólaunuð, og af ævintýraþrá en geri sér ekki grein fyrir að með því grafi þau undan viðkomandi atvinnumarkaði.

„Víst er að allir tapa á félagslegum undirboðum nema atvinnurekendur sem nýta sér hrekkleysi fólks eða bága stöðu til féþúfu. Barátta launafólks til langs tíma er fótum troðin í leit óábyrgra launagreiðenda í leit að skyndigróða. Samfélagið allt er svikið um skatta til samneyslu og staða launafólks til kjarasamninga er veikt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.