Kallar eftir upplýsingum um stöðu fjárveitinga til vegamála

Forseti sveitarstjórnar Múlaþings segir að stjórnvöld verði að upplýsa um hver staða þeirra fjármuna sem áætlaðir eru til vegagerðar á árinu. Mörg verkefni eru í biðstöðu á Norðausturlandi. Alþingi afgreiddi ekki samgönguáætlun fyrir sumarfrí.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþing segir málin einkum snúa um fjármuni sem farið hafa í framkvæmdir við Hornafjarðarfljót og stöðu verkefnastofu fjármálaráðuneytis og innviðaráðuneytis um gjaldtöku af umferð til framtíðar.

Morgunblaðið og Stöð 2 greindu frá því í júní að kostnaður við framkvæmdir við Hornafjarðarfljót virðist vera komnar fram úr fjárheimildum. Áætlaður kostnaður við vegagerðina sé núna um níu milljarðar króna en hafi upphaflega verið 4,9.

Heimildir miðlanna herma að til að bregðast við þessu hafi Vegagerðin flutt fé úr öðrum verkefnum. Vegagerðin hefur hins vegar ekki staðfest kostnaðinn eða tilflutning fjármunanna. Stöð 2 segir það hafa valdið óánægju meðal þingmanna og átt stóran hlut í því að ný samgönguáætlun var ekki afgreidd áður en Alþingi fór í sumarleyfi. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn um áætlanir og kostnað verkefnisins tveimur dögum áður en Alþingi fór í sumarfrí. Fyrirspurninni er því ósvarað.

Lítill áhugi á samvinnuverkefni um Öxi


Upphaflega stóð til að Hornafjarðarfljót yrði boðið út sem samvinnuverkefni, einnig þekkt sem PPP, þar sem ríkið legði til helming framkvæmdafjár en framkvæmdaaðili eða fjárfestar hinn hlutann og næðu upp í kostnað með veggjöldum. Sú leið gekk ekki en samt var farið í framkvæmdina.

Samkvæmt þingsályktun um samgöngumál fyrir árin 2020-24 hefðu framkvæmdir við bæði nýjan veg yfir Öxi og Fjarðarheiðargöng átt að vera komnar í gang. Axarvegurinn var hins vegar háður því að einkaaðilar legðu til helming fjármögnunarinnar. Á upplýsingafundi um Öxi í janúar 2023 sögðu forsvarsmenn Vegagerðarinnar að engar tafir væru á Öxi og verkið yrði boðið út snemma árs 2024. Það hefur ekki gerst enn.

„Við fundum reglulega með Vegagerðinni og það samtal er gott. Þær upplýsingar sem við höfum fengið er að PPP verkefnin hafi ekki gengið sem skyldi og það ekki verið neinir áhugasamir aðilar í Öxi. Þess vegna sé beðið með hana,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Fjármögnun jarðganga ekki enn tryggð


Samkvæmt gildandi samgönguáætlun hefðu framkvæmdir einnig átt að vera hafnar við Fjarðarheiðargöng. Þar hefur einnig verið gert ráð fyrir sérstakri fjármögnun. Það er í höndum sameiginlegri verkefnastofu fjármálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins um gjaldtöku af samgöngum til framtíðar. Verkefnastofan var stofnuð í byrjun árs 2023 og áttu tillögur hennar að vera komnar til framkvæmda í lok þessa árs. Nýverið voru birtar tillögur, unnar af verkefnastofunni, kílómetragjald á öll ökutæki frá og með árinu 2025.

Um miðjan febrúar fengust þær upplýsingar hjá Vegagerðinni um stöðu Fjarðarheiðarganga að útboðsferli tæki um það bil ár. Þess vegna væri mikilvægt að samgönguáætlun yrði samþykkt nú í vor til að hægt yrði að hefja ferlið þannig framkvæmdir við göngin gætu hafist á næsta ári.

„Þau svör sem við höfum fengið frá Vegagerðinni eru afdráttarlaus um að ekki verði byrjað á göngunum meðan jarðgangaáætlunin sé ófjármögnuð. Við verðum að fara að koma henni í gang því það bíða framkvæmdir víðar um landið,“ segir Jónína.

„Við verðum að fá upplýsingar um hver staðan er á vinnu verkefnastofunnar því það skiptir máli upp á hvenær hægt sé að byrja á Fjarðarheiðargöngum. Við köllum líka eftir skýrum svörum um af hvaða liðum fé hefur verið tekið til framkvæmda yfir Hornafjarðarfljót. “

Að samgönguáætlunin sjálf hafi dregist hefur annars ekki afgerandi áhrif á Austurlandi þar sem ekki voru áætlaðar neinar stórframkvæmdir með almennu framkvæmdafé fyrr en árið 2027, þegar byrja átti á veginum um botn Reyðarfjarðar og Öxi, tækist ekki að fjármagna þann veg á annan hátt. „Þetta skapar hins vegar óvissu um ýmsar smærri framkvæmdir, svo sem hafnarframkvæmdir,“ segir Jónína.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.