Karl Guðmundsson nýr framkvæmdastjóri Austurbrúar

karl_solvi_gudmundsson_austurbru.jpg
Dr. Karl Sölvi Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Austurbrúar. Hann tekur við í desember. Hann hefur undanfarin ár starfað í íslenska háskólasamfélaginu.

Hann hefur frá árinu 2007 starfað í háskólaumhverfinu, fyrst sem dósent og deildarforseti við rafmagns og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands og síðar sem forstöðumaður tæknifræðináms Keilis og framkvæmdastjóri Orkurannsókna.

Karl lauk fjórða stigs námi við Vélskóla Íslands 1984 og sveinsprófi í rennismíði tveimur árum síðar. Hann fór til háskólanáms í Ohio 1991 þar sem hann lauk grunnnámi í tölvuverkfræði 1996 og meistaranámi 1998. 

Leiðin lá aftur til Bandaríkjanna 2001 þar sem Karl lauk doktorsprófi í rafmagnsverkfræði frá Wright State University 2004. Doktorsritgerð hans ber yfirskriftina: Fjölvíddar mynsturrakning, flokkun og tvinntölu-tauga-netsþjálfun með fasasíu.

Meðfram námi sínu í Bandaríkjunum starfaði Karl hjá hátæknifyrirtækinu LaserMike um 4 ára skeið. Að loknu meistaranámi réði Karl sig til Tern Systems þar sem hann starfaði sem verkefnastjóri við rannsóknir og þróun á samskiptabúnaði fyrir ISAVIA. Að loknu doktorsnámi starfaði Karl um tíma við hugverkavernd hjá Árnason Faktor í Reykjavík.
 
Í tilkynningu frá Austurbrú segir að helstu áhugamál Karls kallist vel á við hugmyndafræði stofnunarinnar sem varð til síðastliðið vor með sameiningu Þekkingarnets, Þróunarfélags, Markaststofu og Menningarráðs Austurlands, ásamt stjórnsýsluhluta SSA. 
 
Karl er fæddur í Reykjavík 3. desember 1960 og er giftur Unni Hörpu Hreinsdóttur, þau eiga fjögur uppkomin börn og sex barnabörn. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar