Karl Steinar: Tilgangur okkar var ekki að hræða ykkur

karl_steinar_valsson_web.jpg
Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að vélhjólagengi munu reyna að koma sér fyrir á Austurlandi með því að auka framboð á fíkniefnum. Forvarnir gegn þeim séu mikilvæg í baráttunni gegn gengjunum. Hann leggur áherslu á að gengin hafi ekki komið sér þar fyrir enn og hægt eigi að vera að koma í veg fyrir það.

„Tilgangur okkar var ekki að hræða ykkur heldur benda ykkur á að þið hafið tækifæri. Ég vona að það verði áfram friðsælt og gott að búa á Austfjörðum,“ sagði Karl Steinar á borgarafundi um skipulagða glæpastarfsemi sem haldinn var á Egilsstöðum í fyrradag.

„Þið hafið tækifæri til að koma í veg fyrri að þessir hópar nái staðfestu hér. Þið getið gert það með því að sýna það ákveðið að samfélagið vilji ekki þessa hópa. Þeir fela ekkert í sér annað en vandræði.“

Fjölbreytt flóra glæpagengja

Hann segir að vélhjólagengi á borð við Hells Angels séu alls engir áhugamenn um vélhjól heldur fyrst og fremst afbrot. Þau reyni hins vegar að tengjast löglegri starfsemi og jafnvel góðgerðastarfsemi til að bæta ímynd sína. „Við teljum að þeir skemmi ímynd vélhjólafólks með að líkja sér við þá.“

Vélhjólagengin séu þó ekki einu hóparnir hérlendis sem stundi glæpastarfsemi. Litháensk mafía stýri fíkniefnamarkaðinum hérlendis, annar áþekkur hópur tengist Pólverjum og síðan séu minni íslenskir hópar. „Þetta er fjölbreytt flóra.“

Aukið framboð fíkniefna fyrsta merkið

Skipulag vélhjólagengjanna er sérstætt að því leiti að þau byggjast upp á svæðisbundnum yfirráðum. Þau hafa komið sér fyrir á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Siglufirði. 

„Í okkar rannsóknum hafa komið upplýsingar um að þessir hópar hafi verið að horfa til Austurlands því enginn brotahópur hefur verið hér og framtíðarmarkaður til sölu á fíkniefnum.“

Karl Steinar segir að fyrsta verk gengjanna verði að auka framboð á fíkniefnum. Sérstaklega sé sótt í að selja fyrstu árgöngum framhaldsskólanna efni eins og marijúana. „Þið mynduð greina það á unga fólkinu ykkar ef framboðið ykist. Lykillinn er að reka sterkan áróður gegn fíkniefnum.

Það er ekki rétt að halda að hér sé enginn fíkniefnamarkaður. Við verðum að vera meðvituð um það og halda augunum opnum fyrir því hvort það bætir í.“

Í kjölfarið reyni samtökin að finna sér húsnæði. „Á einhverjum tímapunkti myndu þeir þurfa félagsheimili. Þeim hefur ekki gengið vel að finna húsnæði í Reykjavík því mönnum hefur ekki litist á þá. Nauðsynlegt er að fá að sjá hver það sem er hefur áhuga á húsnæðinu og vekja athygli yfirvalda á því ef mönnum líst ekki á leigjendurna.“

Lögreglan er vitlausu megin við núllið

Karl Steinar lagði áherslu á að mikill árangur hefði náðst í baráttu gegn gengjunum að undanförnu. Lögreglan hefði orðið var við aukinn vopnaburð og fengið auka fjármagn í baráttuna sem nýst hafi vel.

„Ríkisreksturinn er allur í böndum eftir hruninu. Lögreglan er vitlausu megin við núllið og við blasir mannekla en við reynum eins og við mögulega getum að standa við okkar. Það hefur komið í ljós mun meiri brotastarfsemi en við héldum og aldrei hafa verið handlögð jafn mörg vopn og í fyrra.

Sveitarfélög eins og þetta verða að horfa á stöðuna. Hættan er raunverulega. Það þarf að tækla málið út frá því og allir þurfa að leggja sig fram um að spyrna við fótum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.