Kennarar á Egilsstöðum sýndu samstöðu með kollegum í verkfalli
Hópur 26 kennara úr Menntaskólanum á Egilsstöðum, Egilsstaðaskóla og Fellaskóla fóru í stuðningsgöngu síðdegis í gær til að votta kollegum sínum sem eru í verkfalli annars staðar í landinu stuðning sinn.
Hópurinn gekk, meðal annars með kröfuspjöld, niður Fagradalsbraut á Egilsstöðum síðdegis í gær áður en staldrað var stundarkorn í garðinum við hlið Nettó þar sem þátttakendur tóku undir kröfur félaga sinna í verkfalli með húrrahrópum. Allir sem Austurfrétt ræddi við tóku heils hugar undir kröfur kennara um betri laun og meiri virðingu fyrir faginu af hálfu stjórnvalda.
Ótímabundin verkföll hófust í níu skólum á þriðjudaginn var. Þar um að ræða fjóra leikskóla, þrjá grunnskóla, einn framhaldsskóla og einn tónlistarskóla. Fjórir skólar til viðbótar hafa tilkynnt verkfallsaðgerðir síðar í næsta mánuði ef ekki næst saman með samninganefndum.
Kennararnir á Egilsstöðum og í Fellabæ ætla að endurtaka stuðningsgöngu sína að viku liðinni og vonast þá til að fá leikskólakennara svæðisins með sér í gönguna. Þeir komust ekki frá vegna vinnu í þetta skiptið. Allir aðrir sem vilja sýna stuðning velkomnir.