Kippur í utankjörfundaratkvæðagreiðslu eftir versnandi veðurspá
Atkvæðagreiðsla utankjörfundar jókst hjá sýslumanninum á Austurlandi í gær eftir að fréttir bárust af mögulegum hríðarbyl og ófærð á kjördag. Skipaður hefur verið sérstakur kjörstjóri í Mjóafirði til að auðvelda íbúum þar að greiða atkvæði utankjörfundar.Upp úr klukkan tíu í morgun höfðu 542 einstaklingar greitt atkvæði utankjörfundar. Það er heldur meira en á sama tíma í kosningunum 2021 og mun meira heldur í forsetakosningunum í vor. Hafa má í huga að mun styttri tími hefur verið til atkvæðagreiðslu utankjörfundar nú en fyrir þremur árum.
Bara í gær voru greidd 162 atkvæði utankjörfundar. Svavar Pálsson, sýslumaður, segir að svo virðist sem kjósendur hafi brugðist versnandi veðurspá. Það sem af er degi er áfram mikil kjörsókn og útlit fyrir að atkvæðin verði fleiri í dag.
Hægt er að greiða atkvæði utankjörfundar á sýsluskrifstofunum á Egilsstöðum, Eskifirði, Seyðisfirði og Vopnafirði og á skrifstofum Múlaþings á Borgarfirði og Borgarfirði. Til viðbótar hafa í vikunni staðið yfir atkvæðagreiðslur á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Atkvæðagreiðsla stendur yfir á Dyngju, sem var síðust í röðinni.
Versnandi veðurspá á laugardag
Kjörstjórnir, bæði í Norðausturkjördæmi og á landinu, hafa síðustu daga lagt á sig vinnu til að bregðast við norðaustanhríð sem gæti spillt færð á laugardag. Í grófum dráttum þá kemur lægð upp að sunnanverðu landinu upp úr hádegi á föstudag. Þegar líður á daginn fer að snjóa og hvessa, fyrst á sunnanverðum Austfjörðum en það teygir sig áfram til norðurs. Enn bætir í sjókomu og vind á laugardag.
Í samantekt Bliku frá í morgun er bent á að enn sé sólarhringur í að veðurspár laugardagsins verði nákvæmar. Enn gætir óvissu, sum veðurlíkön gera til dæmis ráð fyrir að veðrið hratt yfir á laugardag. Í samantektinni segir miklar líkur á hvassri norðaustanátt. Mest snjói á Austurlandi, allt að 30-40 millimetrar. Vegir geti orðið ófærir, einkum frá Möðrudalsöræfum og Hófaskarði austur og suður um í Hornafjörð og Suðursveit. Sums staðar verði einnig hvasst og skafrenningur í byggð.
Sérstakur kjörstjóri í Mjóafirði
Hjá sýslumanninum á Austurlandi hefur meðal annars verið brugðist við þessari veðurspá með að skipa sérstakan kjörstjóra, Sigfús Vilhjálmsson, í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Mjóafirði. Það var gert í morgun til að allir íbúar í Mjóafirði geti greitt atkvæði í tíma. Svipaður háttur er hafður á í Grímsey, en þar var greint frá því í gær að íbúar hefðu bundist samtökum um að klára sína kosningu fyrir kjördag þannig atkvæðin komist örugglega á talningarstað á Akureyri í tíma.
Opið á þremur stöðum á kjördag
Opið er fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðsluna til föstudags. Sýslumannsembættið tryggir að öll atkvæði kjósenda á kjörskrá á Austurlandi sem berast fyrir lokun þann dag komist á öruggan hátt í hendur kjörstjórna áður en kjörstaðir opna á laugardagsmorgni. Kjósendur á kjörskrá utan norðausturkjördæmis sem greiða atkvæði utankjörfundar frá og með fimmtudegi bera sjálfir ábyrgð á atkvæði sínu.
Til viðbótar er auglýst takmörkuð opnun á sýsluskrifstofunum á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Vopnafirði á kjördag. Veðrið gæti haft áhrif því gert er ráð fyrir að senda starfsmenn á milli. Á kjördegi bera kjósendur ábyrgð á að koma atkvæði sínu sjálfir til viðkomandi kjörstjórna.
Svavar segir að yfirleitt sé rólegt hjá sýslumönnum á sjálfum kjördeginum, heimafólki sé vísað á sinn kjörstað en þeim sem greiða atkvæði utan kjörfundar, til dæmis sjómenn sem koma í land eða aðrir sem af einhverjum orsökum eru staddir fjærri sinni heimakjördeild á kjördegi, er leiðbeint um ábyrgð á að koma atkvæði sínu til skila.
Nánari upplýsingar um opnunartíma utankjörfundar er að finna á syslumenn.is