Kjördegi haldið til streitu en talning gæti frestast

Til stendur að halda kjörstöðum í Alþingiskosningum á Austurlandi opnum samkvæmt áætlun á morgun en talning í Norðausturkjördæmi gæti frestast til sunnudags. Vegagerðin og sveitarfélög verða með aukna þjónustu til að hjálpa kjósendum á kjörstað.

„Við ætlum að reyna að halda kjördegi til streitu. Ef það tekst þá frestum við frekar talningu til sunnudags. Við setjum fólk ekki í hættu við að keyra kjörgögn,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis.

Hann sat fund yfirkjörstjórna á landsvísu, landskjörstjórnar, Vegagerðarinnar og Veðurstofunnar í morgun. Hann segir að þar hafi komið fram að verstu veðurspár séu að raungerast, strax í fyrramálið skelli á norðaustan hríðarbylur sem gangi ekki niður fyrr en eftir miðnætti.

Hann segir viðbragðsaðila í viðbragðsstöðu sem og Vegagerðina sem verði með aukna þjónustu. Mögulegt er að fresta kjörfundi, þannig kjörstöðum yrði lokað og þeir opnaðir aftur trúlega á sunnudag þegar veðrið á að vera gengið niður. Gestur segir enga ákvörðun verða tekna um slíkt fyrr en á morgun. Yfirkjörstjórnin treysti þá á mat staðbundinna kjörstjórna sem þekki best aðstæður. Staðan verður metin aftur á fundi klukkan 15:00 í dag.

Beðið þar til öll atkvæði skila sér á talningarstað


Hvergi má hefja talningu fyrr en útséð er að takist að ljúka öllum kjörfundum. Frestum atkvæðagreiðslu á Austurlandi hefði því í för með sér að hvergi á landinu yrði hægt að telja fyrr en á sunnudag.

En ef kjörfundir klárast er heimilt að telja annars staðar. Aðspurður segir Gestur að ef ekki verð hægt að koma öllum kjörgögnum á talningarstað á Akureyri verði einfaldlega beðið með alla talningu í Norðausturkjördæmi þar til öll gögn skila sér norður, væntanlega á sunnudag.

Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun fyrir Austfirði og bætti við í morgun nýjum viðvörunum fyrir Austurland að Glettingi, frá klukkan sex í fyrramálið til sjö á sunnudagsmorgun. Um leið var viðvörunin fyrir Austfirði leng fram til klukkan níu á sunnudagsmorgun. Á þessum tíma er spáð norðaustan hvassvirði og talsverði snjókomu sem leiði til ófærðar.

Ekki er víst að talningarvandræði verði bundin við Norðausturkjördæmi. Fleiri viðvaranir voru gefnar út nú fyrir hádegið. Þannig er varað við hvassviðri og snjókomu í á Suðausturlandi, þótt líkur séu á að veðrið gangi fyrr niður þar en á Austurlandi. Eins eru viðvaranir á Norðurlandi eystra og síðan Norðurlandi vestra. Allt þetta þýðir að talning gæti frestað líka í Norðvestur- og Suðurkjördæmum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar