Kjörfundi lokið á Djúpavogi og Seyðisfirði
Kjörfundi er lokið á bæði Djúpavogi og Seyðisfirði en stendur enn yfir á Egilsstöðum og sex stöðum í Fjarðabyggð. Fylgst er með stöðunni á Fagradal þar sem lýst hefur verið yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu.Samkvæmt reglum mega kjörstaðir lengst vera opnir til klukkan 22, en annars staðar má auglýsa styttri opnunartíma og loka þegar sú stund er runninn upp, að því gefnu að enginn kjósandi hafi komið síðasta hálftímann.
Til stóð að ljúka kjörfundi á Djúpavogi klukkan 18:00 en hann framlengdist aðeins. Kjörsókn endaði þar í 75,6%, þar af 66% á kjörstað. Kjörgögn fóru af stað með björgunarsveitarbíl klukkan 20:00 í Egilsstaði. Fulltrúi kjörstjórnar fylgir gögnunum eftir.
Á Seyðisfirði átti kjörfundi að ljúka klukkan 20:00 en þar framlengdist hann einnig því kjósendur voru fram undir átta að skila sér á kjörstað. Honum var lokað 20:25. Fjarðarheiði er enn haldið opinni og vonast til að kjörgögn komist sem fyrst af stað.
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á Fagradal klukkan 19:30 í kvöld. Vegurinn er enn opinn en varað við að hann geti lokast með stuttum fyrirvara. Ef hann lokast alveg væri mögulega enn hægt að koma kjörgögnum úr Fjarðabyggð og frá Djúpavogi yfir Breiðdalsheiði til Egilsstaða.
Þaðan er stefnt á að fljúga með kjörgögn norður til Akureyrar. Þau áform eru enn óbreytt, þótt talsvert hafi bætt í vind á Egilsstöðum eftir því sem liðið hefur á kvöldið. Landleiðin norður er merkt lokuð í kortum Vegagerðarinnar.
Kjörstaðir á Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað eru opnir til klukkan 22:00.
Björgunarsveitarfólk frá Borgarfirði og Héraði hjálpaðist að við að koma kjörgögnum í Egilsstaði. Gögnin voru ferjuð á milli bíla á Vatnsskarði í kvöld. Mynd: Björn Aðalsteinsson