Kjötvinnslan Snæfell: Aukin krafa frá neytendum að vita hvaðan varan kemur

slaturfelag_austurlands_des12_0003_web.jpg
Neytendur gera auknar kröfur um að vita hvaðan sá matur sem þeir kaupa kemur. Þetta segir Ólafur Kristinn Kristínarson, nýr framkvæmdastjóri kjötvinnslunnar Snæfells sem Sáturfélag Austurlands er að baki. 

Þetta kom fram í máli Ólafs á opnum kynningarfundi um fyrsta rekstrarár kjötvinnslunnar á sunnudag en Ólafur tók við framkvæmdastjórastöðunni í byrjun október. Í sumar gerði félagið samning við Fiskbúðina Höfðabakka í Reykjavík um sölu á kjöti frá fyrirtækinu. Forsvarsmenn þess segja það skipta það töluverðu máli.

„Sá samningur hefur aukið veltuna. Við verðum varir við að það er aukin krafa frá neytendum að vita hvaðan varan kemur og við erum duglegir við að auglýsa uppruna okkar vöru. Við tökum bara inn ákveðna gæðaflokka í vinnslu.“

Allt nauta- og lambakjöt sem félagið vinnur með er af bæjum á Austurlandi en það kaupir grísakjöt annars staðar frá þar sem ekkert svínabú er í fjórðungnum.

Stærstur hluti framleiðslunnar er annars seldur á Austurlandi, einkum til veitingahúsa. „Þau panta alltaf meira af okkur því þau eru að svara vaxandi eftirspurn ferðamanna eftir mat úr héraði,“ segir Sigurjón Bjarnason, fjármálastjóri félagsins.

Snæfell fékk varanlegt vinnsluleyfi í sumar sem þýðir að fyrirtækið getur flutt kjöt á erlendan markað. Sigurjón segir það fjarlægan draum í dag en allt sé opið. „Við erum vel staðsettir til útflutnings þar sem reglulegar skipaferðir eru frá Austurlandi til Evrópu.“

Annirnar eru mestar á sumrin. Starfsmenn eru þá fjórir og mættu vera fleiri til að hafa undan verkunum. Aðrar árstíðir eru hins vegar rólegri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.