Klæðning komin á Vatnsskarð
Lokið var við að setja klæðningu á veginn fyrir Vatnsskarð eystra á þriðjudagskvöld. Borgarfjarðarvegur hefur fengið verulega andlitslyftingu síðustu tvö ár og stefnan er að halda áfram.„Það er erfiðra að leggja klæðningu á og ganga frá í svona miklum bratta en þetta gekk ágætlega,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Reyðarfirði.
Vegurinn yfir Vatnsskarð eystra, frá Unaósi á Fljótsdalshéraði að Njarðvíkur, er 8,8 km. Lagt var á um 2,5 km í fyrra en þá var líka lokið við endurbætur í Njarðvíkurskriðum.
Nú var lokið við afganginn. Framundan er lokafrágangur á svæðinu, svo sem á námum en búið er að ganga frá umhverfi vegarins að mestu. Verktakinn er Héraðsverk.
Sveinn segir að nýi vegurinn verði mikil bót. „Það hafa ákveðnir kaflar orðið mjög leiðinlegir á haustin og þegar umferð hefur verið mikil í rigningartíð á sumrin, til dæmis í kringum Bræðsluna. Síðan hafa verið kaflar í Njarðvíkurskriðunum þar sem vatnið hefur ekki náð að renna út. Þetta léttir lífið fyrir okkur öll.“
Enn er 15 km malarkafli á Borgarfjarðarvegi, frá Eiðum að Laufási í Hjaltastaðaþinghá. Stefnt er á að bjóða það verk út næsta vor, framkvæmdir hefjist í kjölfarið og vegurinn verði tilbúinn haustið 2022.
Frá vegagerð í Njarðvík.