Körfubolti: Auðveldur sigur á Snæfelli – Myndir
Höttur vann í gær öruggan 95-73 heimasigur á Snæfelli í fyrstu deild karla í körfuknattleik. Forusta Hattar var um tíma nærri 40 stig.Það voru reyndar gestirnir úr Stykkishólmi sem skoruðu fyrstu körfurnar og komust í 0-7 áður en Höttur svaraði. Heimaliðið snéri leiknum fljótt sér í vil, komst yfir 12-11 og leit aldrei um öxl.
Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 29-15 og í hálfleik 57-33. Snæfellingar skoruðu aðeins eina körfu fyrstu fimm mínútur þriðja leikhluta og á meðan breikkaði bilið stöðugt. Höttur hafði mest 37 stiga forskot í stöðunni 72-35. Í lok leikhlutans var staðan 81-46.
Í fjórða leikhluta slakaði Höttur á klónni, hvíldi lykilmenn og gaf yngri leikmönnum fleiri mínútur. Það varð til þess að leikurinn jafnaðist nokkuð undir lokin. Þótt Snæfell ynni leikhlutann 14-27 var samt öruggur sigur Hattar í höfn.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var heilt yfir ánægður með frammistöðu Hattar þótt erfitt væri að draga miklar ályktanir um liðið út frá leiknum vegna þess mikla getumunar sem komið hefði í ljós á liðunum. Mikilvægt hefði verið að vinna eftir ósigur gegn Breiðabliki á fimmtudag.
„Það er töluverður munur á efstu og neðstu liðunum í þessari deild. Snæfell hefur misst marga leikmenn og er að byggja upp lið. Það er ágætlega gert og þeirra heimastrákum eru gefin tækifæri.
Þeir töpuðu með þriggja stiga mun fyrir Hamri í síðustu umferð. Þeir eru með góðan mann inni í teig sem þarf að tvöfalda á, við gerðum það ekki og hann varð þeirra stigahæsti leikmaður. Þetta lið hefur bætt sig mikið frá í fyrra.
Mér fannst okkar frammistaða fín. Við héldum ekki einbeitingu allan tímann, það hefur verið aðeins þannig hjá okkur. Við töpuðum síðasta leik og þurftum að rífa okkur upp aftur. Það er fullt af jákvæðum punktum í þessum leik en við erum enn óstöðugir.“
Höttur hefur lokið þremur leikjum í deildinni, unnið þrjá og tapað einum og deilir þriðja sætinu með Vestra. Liðin mætast tvisvar sinnum á Egilsstöðum eftir viku.