Kófið byrjar þegar líður á kjördag

Útlit er fyrir talsverða og mikla snjókomu um allt Austurland á morgun, laugardaginn 30. nóvember, þegar kosið verður til Alþingis. Eftir hádegið hvessir og þá gæti orðið ófært, jafnt á láglendi sem hálendi. Veðurfræðingur telur öruggt að fleiri veðurviðvaranir bætist við í dag.

„Spáin frá í gær er lítið breytt. Það kemur til með að snjóa samfellt á Suðaustur- og Austurlandi frá því í kvöld. Í fyrramálið verður kominn 10-30 sentimetra jafnfallinn snjór. Á morgun verður áfram samfelld ofankoma austan Möðrudalsfjallgarðs og suður á Hornafjörð.

Í nótt snjóar í hægum vindi og framan af morgundeginum verður skafrenningur ekki til trafala. Um klukkan 15 bætir í vind og þá mun þessi létti snjór hreyfast og skaflar myndast. Þá er líklegt að dragi úr snjókomunni en það skiptir ekki máli því snjórinn verður á ferðinni. Þetta stendur fram á kvöld og nótt, ekki síst á sunnanverðum fjörðunum.“

Fjarðarheiði og Fagridalur verða erfið


Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni/Bliku um veðurútlitið á kjördag. Sveitarfélög og Vegagerðin eru í viðbragðsstöðu að reyna að halda vegum opnum þannig kjósendur komist á kjörstað, en það veltur að lokum á veðrinu.

„Þetta verður norðaustanátt og það er misjafnt eftir stöðum hvar myndast skaflar, bæði á Fljótsdalshéraði og Austfjörðum. Það er sennilegt að Fjarðarheiðin verði erfið allan morgundaginn og Fagridalurinn líka þegar vindur snýst meira til norðurs.“

Hann segir sérstakt hversu kalt loft fylgi úrkomunni, algengt sé í norðaustanhátt á Austfjörðum að þar falli frekar slydda eða blautur snjór á láglendi. Ókosturinn er að hann fýkur þegar hreyfir vind, en á móti gæti verið auðveldara að ryðja honum í burtu þegar lægir.

„Þar til birtir á sunnudag verður hvasst og ófært en veðrið á sunnudaginn sjálfan er miklu betra. Lægðin verður farin og veðrið gengið niður, nema allra austast.“

Fleiri viðvaranir væntanlegar


Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun fyrir Austfirði, sem gildir frá 20:00 í kvöld til 21:00 annað kvöld. Einar segir ljóst að fleiri viðvaranir verði gefnar út í dag.

Aðspurður segist hann ekki hafa sérstakar ráðleggingar til kjósenda umfram þau tilmæli sem þegar hafa verið send út um að kjósa utankjörfundar.

Vegagerðin, Veðurstofan og kjörstjórnir funda nú um næstu skref.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar