Komu upp tveimur díselvélum í miðbæ Vopnafjarðar til að knýja bræðsluna

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim keypti tvær díslelrafstöðvar í vetur og setti upp í miðbæ Vopnafjarðar til að knýja fiskimjölsverksmiðjuna á meðan skerðingar stóðu yfir á raforku í vetur. Forstjóri fyrirtækisins segir að stjórnvöld verði að huga að því að styðja við vegferð fyrirtækja í raforkumálum.

Þetta má lesa út úr ársfjórðungsuppgjörum Brims og ávarpi forstjórans, Guðmundar Kristjánssonar, með þeim. Vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum hætti Landsvirkjun sölu á skerðanlegri orku frá janúar fram í maí.

Fiskimjölsverksmiðjurnar treysta á þá orku þar sem þær eru aðeins reknar hluta úr ári. Í uppgjörinu segir að framleiða hafi þurft rafmagn með ljósavélum til að hægt væri að þurrka fiskimjöl með rafdrifnum þurrkurum. Verksmiðjan var rafvædd árið 2010.

Datt ekki í hug að rafmagnið myndi seljast upp


Í kynningu sinni segir Guðmundur að fyrirtækið hafi ekki verið undir það búið að ekki væri hægt að kaupa raforku til að knýja bræðsluna. „Það kom okkur í opna skjöldu að við þyrftum að gera langtímasamninga um raforkukaup til að tryggja þá raforku sem við þyrftum. Ekki hvarflaði að okkur þegar Brim á sínum tíma fjárfesti í búnaði til að knýja fiskmjölsverksmiðju okkar með rafmagni að í framtíðinni yrði búið að selja það mikla raforku í langtímasamninga við stórnotendur að orkan yrði uppseld og ófáanleg,“ segir þar.

Sem fyrr segir keypti fyrirtækið tvær díselrafstöðvar til að bregðast við þessu og kom upp nærri verksmiðjunni, í miðbæ Vopnafjarðar. Það jók bæði kostnað og kolefnisspor fyrirtækisins. Á árunum 2011-20 þurfti að jafnaði að brenna 100-500 þúsund lítrum af olíu á ári í verksmiðjunni en á fyrri helmingi þessa árs var brennt þar 1,7 milljón lítra.

Gagnrýnir ívilnanir til stóriðju


Guðmundur setur einnig fram gagnrýni á ákvæði í nýjum raforkulögum, sem heimilar stórnotendum að selja þá orku sem þeir nota ekki aftur inn á kerfið. Það hefur ekki verið heimilt til þessa. Um leið brýnir hann stjórnvöld til að tryggja að fyrirtæki sem vilja fara þá vegferð að skipta út jarðefnaeldsneyti geti það.

„Mikilvægt er að breytingar á raforkulögum og þróun raforkumarkaðar á Íslandi styðji vegferð fyrirtækja í loftslagsmálum og markmið raforkulaganna um eflingu atvinnulífs og byggðar í landinu. Eða kemur að því á næstunni að Brim og önnur fyrirtæki á Íslandi þurfi að kaupa rafmagn af stóriðjunni á uppsprengdu verði þar sem stóriðjan hefur gert langtíma raforkusamninga við Landsvirkjun en íslenskt atvinnulíf og almenningur ekki?“

Kolmunninn kemur ekki í stað loðnunnar


Rekstur Brims, einkum uppsjávarsviðsins, litast annars af því loðnubresti. Kolmunnaveiðar voru stundaðar frá janúar fram í febrúar, hlé var í mars og uppsjávarskipin þá við bryggju, en byrjað aftur af miklum krafti í apríl. Skip félagsins veiddu alls um 45.000 tonn af kolmunna, sem ýmist var landað á Vopnafirði eða Akranesi. Aflinn var þó aðeins rúmum 1.000 tonnum meiri en í fyrra en kolmunnavertíðin þá var sú besta frá 2019.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.