Kortaforrit rata ekki nýja veginn yfir Berufjörð

Dæmi eru um að ferðamenn sem koma til Austfjarða úr suðri keyri yfir Öxi því nýi vegurinn yfir Berufjörð er ekki kominn inn í kortaforrit og staðsetningartæki. Vegagerðin segist lítið geta gert annað en að setja þrýsting á kortagerðarfyrirtæki.

„Eftir að nýi vegurinn yfir Berufjörð opnaði í sumar fór að bera á því að ferðamennirnir fara lengri leið til okkar en þeir þurfa,“ segir Helga Svanhvít Þrastardóttir hjá ferðaþjónustunni að Gljúfraborg í Breiðdal.

Þegar ferðamennirnir koma inn í Berufjörð úr suðurátt vita staðsetningarforrit, svo sem Google Maps, ekki af því að taka þarf hægri beygju til að fara norður yfir fjörðinn. Ferðamennirnir keyra þess í stað gömlu leiðina inn að botni fjarðarins.

Þar koma þeir að vegamótunum upp á Öxi en hinum gamla þjóðvegi 1, út með firðinum að norðanverðu, er þar lokað með keilum. Ferðamennirnir líta því svo á að þar sé eina færa leiðin yfir Öxi, enda liggur þar yfir straumur bíla. „Það er erfitt að snúa fólki við þarna því það er röðin upp,“ segir Helga Svanhvít.

Hún hefur reynt að ráðleggja gestum sínum betri leið en talar fyrir daufum eyrum. Ferðamennirnir fara upp Öxi og síðan niður Breiðdalsheiði til að komast að Gljúfraborg, sem stendur rétt fyrir innan þorpið á Breiðdalsvík. „Þeir fara yfir tvo fjallvegi og sumir eru óttaslegnir eftir að hafa keyrt í svartaþoku þegar þeir hefðu getað keyrt 30 mínútna leið á malbiki.“

Umferð var hleypt á nýja veginn í lok júlí. Helga Svanhvít segist hafa mestar áhyggjur af því hvað geti gerst þegar kólni og við taki hálka og snjókoma á fjallvegunum ef ekki takist að uppfæra kortaforritin.

Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að stofnunin geti ekki tilkynnt eða beðið fyrirtæki eins og Google, sem halda úti hinu vinsæla Maps forriti, um að lagfærða upplýsingar sínar. Unnið hafi verið að því en lítið áunnist. Þetta eigi ekki bara við um Ísland, vandamálið sé alls staðar á Norðurlöndunum. Rætt hafi verið innan norrænu vegagerðanna að taka höndum saman um þessi mál.

Frá opnun vegarins yfir Berufjörð. Mynd: Ásgeir Metúsalemsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.