„Krakkarnir sýna frábæran aga“
Margvíslegar ráðstafanir hefur þurft að gera í grunn- og leikskólum Fjarðabyggðar í samræmi við ráðstafanir til að hindra útbreiðslu covid-19 veirunnar. Fræðslustjóri segir bæði nemendur og kennara hafa staðið sig vel við erfiðar aðstæður og eigi hrós skilið.Kennslu er haldið úti í öllum grunnskólum Fjarðabyggðar eftir stundaskrá. Á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Norðfirði eru elstu bekkirnir sendir heim í hádegismat og fjarkennt eftir það. Verið er að skoða aukna fjarkennslu hjá unglingunum.
Þóroddur Helgason, fræðslustjóri, segir kennsluna ganga vel þrátt fyrir breyttar aðstæður og nemendurnir slái ekki slöku við. „Ég dáist að aganum hjá krökkunum.“
Matsmálstímarnir eru einna mesta áskorunin á báðum skólastigunum. Í leikskólunum er maturinn sendur inn á deildirnar en í grunnskólanum er skammtað á diskana og þess gætt að tveggja metra bil sé milli nemenda í röðinni.
Vandlega hefur verið gætt að aðgreiningu deilda í leikskólunum. Gott veður síðustu vikuna hefur hjálpað til því hægt hefur verið að fara með nemendur út í gönguferðir. „Það hefur verið mikil útivist og hún minnkar álagið á bæði lóðunum og húsnæðinu,“ segir Þóroddur.
Þeir kennarar sem eru með undirliggjandi sjúkdóma hafa alfarið unnið heiman frá sér þá nýtt sér möguleika netsins til þess að halda úti kennslu.
Tónlistarskólarnir hafa einnig haldið uppi nær fullri kennslu, aðeins hóptímar og tónfundir sem hafa fallið niður. „Þetta reynir á alla, en ég er gríðarlega ánægður með mitt fólk, bæði nemendur og starfsfólk,“ segir Þóroddur.