Krefjandi verk að leggja ljósleiðarann til Mjóafjarðar

Vandasamt og erfitt var að leggja ljósleiðara og rafstreng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar. Enn er eftir að klára rafstrenginn á erfiðasta hluta leiðarinnar en þegar það verður gert næsta sumar fá Mjófirðingar þriggja fasa rafmagn.

„Öll leiðin er krefjandi. Hún er brott, blaut og illfær,“ segir Finnur Freyr Magnússon, deildarstjóri netreksturs Rarik á Austurlandi.

Fyrir viku var haldið upp á það að ljósleiðari væri kominn til Mjóafjarðar, sem um leið varð síðasti byggðakjarninn hérlendis til að fá slíka tengingu. Rarik sá að mestu um lagningu strengjanna, 17 km lengd, í samvinnu við Neyðarlínuna.

Samstarfið mikilvægt

Segja má að framkvæmdin hafi hafist árið 2014 þegar rafmagnslínan milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar féll á um tveggja kílómetra kafla í um 1000 metra hæð. Ekki var talið að hægt væri að reisa hana aftur með góðu móti og því lagður jarðstrengur í staðinn.

Rarik tókst það verk á hendur og gekk ágætlega að greiða úr samskiptum við landeigendur og aðra hagsmunaaðila. Því kom það í hlut fyrirtækisins að leggja ljósleiðarann samhliða rafstreng. Fleiri komu að verkinu, meðal annars ríki og sveitarfélög.

„Þetta samstarf hefur gengið prýðilega. Leiðin var landfræðilega kerfjandi og það hefði líklega enginn einn farið alla þessa leið. Með samstarfinu varð til hvatning og menn leystu hlutina sameiginlega,“ segir Finnur.

Á ýmsu gekk þó. „Það gilda ákveðnar reglur um frágang. Við reyndum að vanda leiðarval og fara alltaf sömu leið með tækin. Það varð alltaf erfiðra að fara þá leið en við vildum það frekar en búa til margar slóðir og þetta tókst ágætlega.

Verktakinn varð þó fyrir skakkaföllum, það skemmdust tæki og vagnar út af grjóti og drullu. Við töfðumst líka, stundum tók heilan dag að koma tækjum á verkstað út af erfiðum aðstæðum.“

Klifrarar á erfiðasta hluta leiðarinnar

Erfiðasti hluti leiðarinnar var efst í fjallinu Mjóafjarðarmegin. „Þar er hengiflug fyrstu nokkur hundruð metrana. Neyðarlínan fékk klifrara í það verk sem lögðu rör utan á klettana. Þeir fóru á línum og boruðu festingar utan í bergið. Á þessum stað er ljósleiðarinn tvöfaldur, þannig að ef eitthvað gerist fyrir annan strenginn er hinn til staðar.“

Raflínan á því svæði er enn ófrágengin en til stendur að setja línuspenni þar næsta sumar. Um leið mun þriggja fasa tenging við Mjóafjörð verða virk.

Næsta sumar er einnig stefnt á að leggja leggja ljósleiðara frá Hánefsstöðum í símstöð í Seyðisfirði í samvinnu við Rarik. Þar á eftir á að leggja ljósleiðara áfram frá Mjóafirði til Norðfjarðar og Eskifjarðar. Þar með kemst á hringtenging en aðeins er til staðar tenging þangað frá Reyðarfirði í dag. Við athöfnina í Mjóafirði lýsti samgönguráðherra vonum sínum til að því verki yrði lokið 2021 eða 22.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar