Krefjast flug- og starfsöryggis fyrir Reykjavíkurflugvöll
Tæplega níu hundruð einstaklingar hafa á aðeins fjórum dögum skrifað nafn sitt undir áskorun til sitjandi innviðaráðherra þess efnis að tryggja flug- og starfsöryggi Reykjavíkurflugvallar.
Undirskriftalistanum var komið á fót fyrir tilstuðlan Arnórs Valdimarssonar vegna þeirrar ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur, fyrrum innviðaráðherra, að gefa Reykjavíkurborg grænt ljós til að stækka íbúðasvæði við flugvöllinn og þannig takmarka enn frekar starfsrými á flugvellinum sem fjölmargir íbúar á landsbyggðinni nota til að sækja nauðsynlega þjónustu.
Um 90% Austfirðinga vilja hafa völlinn á sínum stað samkvæmt nýlegri skoðanakönnun sem lesa má hér.
Áskorunin, sem finnst á vefnum Ísland.is er svohljóðandi í heild sinni:
„Við undirrituð skorum hér með á Innviðaráðherra Sigurð Inga Jóhannsson að afturkalla tilmæli Svandísar Svavarsdóttur fyrrverandi Innviðaráðherra til ISAVIA um að færa girðingu Reykjavíkurflugvallar svo að Reykjavíkurborg geti fengið flugvallarland í Skerjafirði til húsbygginga. Þau tilmæli stangast á við Lög um loftferðir nr. 80 frá 2022. Einnig skorum við á Sigurð Inga að ganga í það að grisja ofvöxt trjáa í Öskjuhlíð sem standa upp í hindranaflöt fyrir aðflug og brottflug, og einnig brjóta sömu lög. Það er skylda Innviðaráherra tryggja að flugöryggi og flugrekstraröryggi skerðist hvergi á meðan hann er þar sem hann er!“
Deilur hafa staðið lengi yfir um hvort flytja eigi völlinn og þá hvert en mikil stækkun Landakotsspítala á sínum tíma var að hluta til sökum nálægðar við Reykjavíkurflugvöll. Afar víða á landsbyggðinni verða íbúar að gera sér að góðu að sækja ýmis konar heilbrigðisþjónustu með flugi suður í höfuðborgina og sumir oft á ári.
Hafa þess vegna margir þingmenn og sveitarstjórnir á landsbyggðinni ítrekað bókað andstöðu gegn færslu vallarins enda skerði slíkt aðgengi til muna. Enn er til skoðunar að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni þó um virkt eldgosasvæði sé að ræða en hin lausnin að innanlandsflugið flytjist alfarið til Keflavíkurflugvallar.