Kröfu Hannesar fyrir ólögmæta uppsögn vísað frá dómi

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpg
Bótakröfu Hannesar Sigmarssonar, fyrrverandi yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð fyrir ólögmæta uppsögn var vísað frá Héraðsdómi Austurlands í gær. Hannes fór aðeins fram á skaðabætur fyrir uppsagnarfrestinn en ekki tjóns af völdum uppsagnarinnar. Taldi dómurinn því ósamræmi í kröfum hans og málatilbúnaði.

Hannes fór fram á sex milljónir króna í bætur frá stofnuninni. Hafði krafa hans lækkað þó nokkuð frá því að hún var lögð fram, fyrst úr 27 milljónum í 19,5 og síðan niður í sex. HSA fór fram á sýknu.

Hannes var fyrst sendur í leyfi frá störfum í ársbyrjun 2009 eftir að grunur vaknaði um að hann hefði ítrekað ofreiknað sér laun. Málið var kært til lögreglu en Hannes hélt fullum launum á meðan. Málið þvældist fram og til baka með þeirri einu niðurstöðu að ekki væri tilefni til ákæru þar sem ólíklegt væri að hún leiddi til sakfellingar.

Annars staðar í vinnu

Í júlí 2009 var Hannes felldur út af launaskrá HSA, meðal annars á þeim forsendum að hann hefði ráðið sig til læknisstarfa erlendis og stofnað eigið fyrirtæki til að sinna læknisstörfum. Það hefði hann gert án samráðs við forsvarsmenn HSA og enga grein gert þeim fyrir tekjum sínum af þeim vettvangi. 

Þetta tafði rannsókn lögreglunnar þar sem ekki var hægt að yfirheyra Hannes meðan hann var erlendis. Við þessu hefði Hannes ekki hreyft andmælum og héldu forsvarsmenn HSA því fram að hann hefði fyrirgert áminningarrétti sínum með að ráða sig í fulla vinnu annars staðar.

Ofreiknuð laun, slæm framkoma við samstarfsfólk, illa færðar sjúkraskrár og óhlýðni

Þrátt fyrir að lögreglan felldi málið niður var Hannesi sagt upp störfum í lok árs 2009 með fjögurra mánaða uppsagnarfresti. Í rökstuðningi HSA fyrir uppsögninni eru taldar upp fjórar ástæður.
 
Að Hannes hafi ofreiknað sér laun, læknisfræðilegum vinnubrögðum hans hafi verið ábótavant, fyrir að hafa endurtekið óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna um starfshætti og vinnufyrirkomulag og fyrir framkomu sína gagnvart samstarfsfólki sínu innan HSA.

Hannes taldi uppsögnina ólögmæta. Hún byggðist á röngum forsendum og ekki hefði verið farið að starfsmannalögum. Hann hefði aldrei til dæmis aldrei fengið „raunverulegt tækifæri til að skýra mál sitt.“

Aldrei áminntur formlega

Hannes benti á að honum hefðu ekki verið veittar áminningar fyrir að óhlýðnast yfirmönnum sínum eða önnur brot í starfi. Forsvarsmenn HSA bentu á að haustið 2007 hefði verið fundað með honum og hann beðinn um að bæta verkskráningar. 

Horfið hefði verið frá áminningum því Hannes lofaðist til að bæta ráð sitt, meðal annars fyrir hvatningu framkvæmdastjóra Læknafélagsins. Það hefði ekki borið árangur. Hann hefði færst í aukana frekar en hitt og kostnaður á hans vegum verið mun hærri en allra annarra lækna.

Forsvarsmenn HSA báru fyrir dómi að staðan, einkum í ljósi ásakananna um samskiptaörðugleika við samstarfsfólkið, hefðu verið svo alvarleg að ekki hefði verið hægt að ljúka málinu með öðru en beinni uppsögn. Áminning hefði, þegar þarna var komið við sögu, verið ónothæft úrræði til að bæta starfsskilyrði innan heilsugæslunnar í Fjarðabyggð.

Mistök við innslátt í Excel

Við yfirheyrslur hjá lögreglu viðurkenndi Hannes að hafa gert mistök við innslátt í töflureikni sem hefðu orðið þess valdandi að launagreiðslur hans urðu hærri en hann hafði ætlað. Hann gerði hins vegar ráð fyrir að þessi mistök yrðu leiðrétt þegar farið yrði yfir gögnin hjá yfirstjórn HSA og það dregið af launum hans. Honum hefði ekki verið gefið tækifæri á að leiðrétta mistökin heldur hefði því verið slegið föstu að hann falsaði færslurnar í auðgunarskyni.

Hannes bar því einnig við að honum hefði ekki fengið að tjá sig um skýrslu tveggja sálfræðinga sem gerðu úttekt á líðan starfsmanna heilsugæslunnar í Fjarðabyggð fyrir heilbrigðisráðuneytið. Í henni er lagt til að Hannesi verði sagt upp störfum fyrir framkomu hans við samstarfsfólk, meðal annars þann tíma sem hann hefði verið í leyfi vegna rannsóknarinnar.

Ólag á sjúkraskrám

Forsvarsmenn HSA sögðu að Hannes hefði ekki uppfært sjúkraskrár eins og honum bar að gera. Hann sagði að hann hefði fært þær inn seint því starfsálag á hann hefði verið mikið. Sjúklingarnir hefðu orðið að ganga fyrir. Alvarleg veikindi fyrrverandi eiginkonu hans, sem lést í febrúar 2009, hefðu aukið álagið en ekki hefði verið tekið neitt tillit til þess við meðferð málsins. 

Af hálfu HSA var því haldið fram að Hannes hefði með að vanrækja sjúkraskrárnar valdið tjóni á þeim sem ekki yrði bætt. Hann hefði brugðist kröfum um að viðhalda upplýsingum um heilsufar sjúklinga.

Forsvarsmenn stofnunarinnar segja að eftir að Hannesi var vikið frá störfum hafi starfsandinn á heilsugæslu Fjarðabyggðar „gerbreyst til hins betra og umtalsverður sparnaður hafi orðið í rekstri heilsugæslunnar, þannig að nú falli starfsemin orðið að kostnaðarviðmiðum HSA. Gjaldskrárverk séu komin í eðlilegt samhengi við starfsemina og fylgt sé þeim reglum sem um gjaldskrárverk gildi.“

Óskýr málatilbúnaður

Fjölskipaður héraðsdómur vísaði kröfu Hannesar frá á þeim forsendum að ósamræmi væri milli skaðabótakröfunni og málsgrundvallarins sem fyrir henni hefði verið lagt. Krafa Hannesar byggðist á að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna uppsagnarinnar en tjónið sem hann vildi fá bætt samsvaraði aðeins þeim greiðslum sem hann taldi sig hafa átt að fá á uppsagnarfrestinum. Að lækka bótakröfuna á meðan málið var fyrir dómi þótti ekki nóg til að styrkja hana. 

Málatilbúnaður Hannesar þótti þannig „í slíkri andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um glöggan og skýran málsgrundvöll að óhjákvæmilegt“ væri annað en vísa öllum kröfum hans frá dómi.

Dómurinn benti á að ákvörðun um uppsögn hans hefði ekki aðeins byggst á að hann hefði ofkrafið stofnunina um laun heldur þremur öðrum atriðum. Hannes þótti ekki hafa sýnt fram á að fullyrðingarhans, um að uppsögnin hafi byggst á að hann hefði gerst sekur um auðgunarbrot, ætti við rök að styðja. Dómurinn hafnaði því miskabótakröfu Hannesar sem byggðist á þeim forsendum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar