Kristín Albertsdóttir vestur á firði

Kristín Björg Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur verið skipuð forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða frá 1. nóvember næstkomandi. Ekki er ljóst hver tekur við starfinu eystra þá.


Kristín Björg var ein fjögurra sem sótti um starfið vestra en sérstök nefnd mat hæfi umsækjenda. Í umsögn nefndarinnar segir að Kristín Björg uppfylli afar vel skilyrði auglýsingar um menntun og starfsreynslu.

Hún hafi verulega þekkingu og reynslu á sviði heilbrigðisþjónustu, stjórnunar og reksturs, sé gædd góðum leiðtogahæfileikum, hafi á ferli sínum sýnt að hún sé í stakk búin til að takast á við vandasöm og krefjandi verkefni og sé leiðtogi með brennandi áhuga á umbótum í heilbrigðisþjónustu:

„Kristín Björg hefur gegnt forstjórastarfi við HSA undanfarin þrjú ár og náð góðum árangri í rekstri, starfsmanna- og gæðamálum“ segir einnig í umsögn hæfnisnefndar.

Kristín Björk er með próf í hjúkrunar fræði og lögfræið frá Háskóla Íslands. Hún tók starfi forstjóra HSA 1. júlí 2013.

Kristín hefur á starfsferli sínum meðal annars starfað við hjúkrunarráðgjöf hjá Læknavaktinni, verið deildarstjóri við Heilbrigðisstofnunina á Egilsstöðum og hjúkrunarforstjóri í afleysingum, hún starfaði um árabil við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, meðal annars sem aðstoðardeildarstjóri, sem hjúkrunarforstjóri heilsugæslu við Heilbrigðisstofnunina á Seyðisfirði og einnig við Heilsugæsluna á Fáskrúðsfirði.

Austurfrétt fékk þær upplýsingar hjá velferðarráðuneytinu í dag að embætti forstjóra HSA verði auglýst til umsóknar um helgina og nýr forstjóri skipaður „eins fljótt og auðið er.“ Í millitíðinni verði forstjóri settur tímabundið í stað Kristínar en ekki er ákveðið hver það verður.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.