Kristján Þór biðst afsökunar á að hafa talað um einelti gegn Bjarna Ben
Kristján Þór Júlíusson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur beðist afsökunar á að hafa sagt að formaður flokksins sætti einelti í fjölmiðlum. Kristján hefur hlotið nokkra gagnrýni fyrir að hafa notað hugtakið á þann hátt sem hann gerði.
Eins og Austurfrétt greindi frá í gær sagði Kristján Þór á opnum fundi í síðustu viku að formaðurinn, Bjarni Benediktsson, væri eini forustumaðurinn í íslenskum stjórmálum sem sætti einelti.
Stefán Karl Stefánsson, einn forsvarsmanna samtakanna Regnbogabarna, sem berjast gegn einelti, skrifaði Kristjáni bréf og gagnrýndi orð þingmannsins.
Á Facebeook-síðu sinni greinir Stefán Karl frá því að Kristján hafi skrifað honum til baka og beðist afsökunar. „Að sjálfsögðu er hann maður að meiri fyrir það,“ skrifar Stefán Karl.
„Kristján tók ábendingu minni fagnandi og lofar betrumbót. Fyrir það er ég honum þakklátur og lít á málið sem afgreitt í bili.“
Stefán segist ekki telja að Kristján Þór hafi „meðvitað verið að gjaldfella orðið.“ Það sé hins skylda hans að „stíga fram og reyna að stoppa það að orðið og málefnið sé skaðað með þessum hætti. “
Siðferði sé annað mál sem aðrir verði að stíga fram og tala um. Stefán hafi nóg að gera við að sinna forvörnum gegn einelti. „Forvarnir er ekki eitthvað sem tekur enda, það er símenntun og við þurfum stöðugt að passa það að samfélagið sé upplýst. Pössum orðaval og gætum tungu okkar, „högg tungunnar brjóta bein“.“