Kristína með metafla af frystum afurðum til Neskaupstaðar
Kristína EA 410 kom í dag með tæp tvö þúsund tonn af frystum afurðum til Neskaupstaðar sem veiddar voru á sex dögum. Ekki mun hafa áður verið landað hérlendis jafn miklum afla sem frystur hefur verið á svo stuttum tíma.
„Við byrjuðum að veiða síðasta sunnudag. Mest af aflanum fengum við norður af Langanesi. Það er lengra síðan við fórum út en við þurfum að bíða á reki fyrstu dagana,“ sagði Hjörtur Valsson, skipstjóri í túrnum, í samtali við Austurfrétt í kvöld.
Kristína, sem er í eigu Samherja, kom til Neskaupstaðar fyrir hádegi í morgun með tvö þúsund tonn af frystum afurðum, mest loðnu. Ástæðan fyrir biðinni á miðunum er að Kristína veiðir allan sinn afla með trolli og það má aðeins nota á ákveðnum svæðum í íslensku landhelginni. Skipverjar þurftu því að bíða á meðan fiskurinn gekk inn í hólfið sem nær frá Langanesi austur að Norðfjarðardjúpi.
„Loðnan var vestar fyrst eftir áramótin en hefur verið að færa sig austur á bóginn. Það er ekki mikið af henni á ferðinni. Veiðin er ágæt en fiskurinn breiðir ekki úr sér á stóru svæði enn sem komið er.“
Skipið heldur aftur til veiða þegar lönduninni lýkur í fyrramálið. Kristína er stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans, tæp 7.700 brúttótonn að stærð og er gerð út á loðnu og makríl.