Kveikt í rusli án leyfis

Slökkvilið frá Egilsstöðum var í gærkvöldi kallað út vegna elds sem logaði í landi Blöndugerði í Hróarstungu. Ekki var vitað í hverju logaði þegar slökkviliðið var kallað út.

Slökkviliðið var kallað út rétt fyrir klukkan hálf níu í gærkvöldi eftir að ábending barst frá vegfaranda um Heiðarenda sem séð hafði eld. Ekki var ljóst þá í hverju logaði og fóru átta slökkviliðsmenn af stað frá Egilsstöðum á þremur bílum.

Þegar komið var á staðinn var ljóst að kveikt hafði verið í rusli, timbri og öðrum úrgangi. Ingvar Birkir Einarsson, varaslökkviliðsstjóri, segir að eldurinn hafi ekki verið mikill og engar byggingar eða annað í umhverfinu verið í hættu.

Slökkt var í eldinum og var slökkviliðið komið aftur til baka í Egilsstaði um klukkan tíu í gærkvöldi. Þeir sem kveiktu í ruslinu mega hins vegar eiga von á sekt. Opin brennsla úrgangs er bönnuð samkvæmt lögum og gefnar eru út sektir ef kallað er út slökkvilið vegna slíkra brota.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar