Kvikmynd tekin upp á Borgarfirði keppir um verðlaun á stórri hátíð
Hjartasteinn, kvikmynd sem tekin var upp að stærstum hluta á Borgarfirði eystra síðastliðið haust, hefur verið valin í til keppni á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskri kvikmynd hlotnast sá heiður að vera valin til keppni á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, sem er ein allra virtasta kvikmyndahátíð heims. Hjartasteinn er ein af aðeins 12 kvikmyndum sem taka þátt í keppnisflokknum Venice Days í Feneyjum en aðstandendur hátt í þúsund mynda allstaðar að úr heiminum sóttust eftir þátttöku.
Hjartasteinn keppir um þrenn verðlaun í sínum flokki ásamt því að keppa um 100.000 dollara peningaverðlaun sem allar fyrstu myndir leikstjóra eiga möguleika á, þvert yfir alla flokka Feneyja hátíðarinnar.
Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi og fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina. Tökur fóru fram síðasta haust, einkum á Borgarfirði eystra en líka á Seyðisfirði, Vopnafirði og í Dyrhólaey.
Myndin verður heimsfrumsýnd á hátíðinni sem fer fram frá 31. ágúst til 10. september en stefnt er að því að frumsýna myndina á Íslandi síðar í haust.