„Kyndiofninn mun borga brúsann“

„Það eru virkilega spennandi tímar framundan,“ segir Bjarki M. Jónsson, eigandi Skógarafurða í Fljótsdal, en fyrirtækið fyrir skemmstu fyrsta sérsmíðaða timburflutningabíl landsins, ásamt vínekrudráttarvél.


Timburflutningabíllinn samanstendur af bíl með hleðslupalli og krana og sérsmíðuðum tengivagni, en hann var sóttur alla leið til Lapplands í Finnlandi og er af gerðinni Scania R 620 topliner, árerð 2008. Bændablaðið greindi fyrst frá málinu.

Met fyrri eiganda var sjö mínútur
Bjarki segir með tilkomu bílsins verði bæði mun fljótlegra og ódýrara að sækja timbur en áður hefur þekkst við timburflutninga úr íslenskum skógum, en kranastjórinn situr það hátt að hann sér vel yfir hleðsluvagninn þegar hlaðið er á bílinn.

„Timburflutningabílar af þessu tagi eru stöðugt að verða fljótvirkari, en hleðsla á vagna sem áður tók einhverja klukkutímum með krana og bíl, tekur nú vel innan við hálftíma. Met fyrri eiganda við að hlaða á þennan bíl við fjögurra metra efni var sjö mínútur. Kranninn er útbúinn vigt sem vignar hvert „híf“ sem svo skráist inn í tölvu í bílnum, en þetta gerir okkur kleift að sækja minni skammta til fleirri skógarbænda í sömu ferð.

Ég kaupi þennan bíl aðeins til þess að sækja efni fyrir okkar fyrirtæki. Hingað til hefur heimflutningurinn verið mjög dýr, kostað kannski 500 þúsund á hvern bílfarm, af því um 100 til 150 þúsund við að lesta bílinn. Það er peningur sem ég er ekki tilbúinn að borga og losna við með þessum nýja bíl.“

Vinnur vel í miklum halla
Auk timburflutningabílsins festu Skógarafurðir einnig kaup á ítalskri vínekrudráttarvél, en hún er sérhæfð til að vinna í miklum hliðarhalla sem henti vel í skógræktarvinnunni. Aftan í hana er hengdur timburvagn til að sækja timbur í eldiviðarframleiðslu fyrirtækisins.  

„Við munum að mestu nýta vélina til þess að sækja birki í eldivið, en við erum oft að skrönglast erfiðar leiðir og þá höfum við verið að berjast við að finna tæki sem tylldi á hjólunum – það er nú leyst með þessu tæki. Þennan traktor stefnum við einnig á að nota við öðruvísi jólatrjáaakur, en ég ætla að nýta tún og breyta því jólatrjáaakur líkt og gert er á vínekrunum. Ég tek þá grasþökurenninga sem plantað verður í og á milli þeirra verður bil sem traktorinn kemst um og verður það svo slegið reglulega.“

Samtals eru þetta fjárfestingar upp á um 20 milljónir króna. „Þar kemur aðal rúsínan í pylsuendanum, en kyndiofninn mun borga brúsann, en við erum að fara af stað með sjálfbæra kyndistöð – 100KW brennsluofn sem tekur allt rusl og afskurð. Ofninn mun knýja alla þurrkofna fyrir timbrið og öll húsin og með því móti dettur allur kyndikostnaður niður sem var gýfurlegur og með þvi móti brúum við þessa stóru fjárfestingu.“

Sjónvarpsþátturinn Að austan á N4 heimsótti Bjarka fyrir jól, en viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.