Kynna áform um að friðlýsa Gerpissvæðið
Umhverfisstofnun, ásamt sveitarfélaginu Fjarðabyggð og í samstarfi við landeigendur, hefur kynnt áform um friðlýsingu Gerpissvæðisins, milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Áformin eru kynnt í samræmi við ákvæði náttúruverndarlaga. Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 1. desember 2020.Á vefsíðu Umhverfisstofnunar segir að meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda landsvæði þar sem er sérstætt gróðurfar, fjölbreytilegt landslag, merkar jarðminjar, búsetuminjar og vinsælt útivistarsvæði á austasta hluta landsins.
Einnig er markmið friðlýsingarinnar að tryggja búsvæði tegunda til að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í samræmi við innlend markmið sem og markmið Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og evrópska stefnumótun um plöntuvernd.
Gerpissvæðið er á náttúruverndaráætlun 2009-2013 sem samþykkt var á Alþingi, með það að markmiði að vernda búsvæði nokkurra sjaldgæfra æðplöntutegunda sem þar finnast en svæðið býr yfir sérstæðu gróðurfari sem einkennist af snjódældargróðri. Samkvæmt skráningu Náttúrufræðistofnunar eru búsvæði sjaldgæfra æðplantna enn þau sömu/áþekk innan Gerpissvæðisins og verndargildi svæðisins hátt hvað það snertir.
Auk fjölmargra sjaldgæfra plöntutegunda eru þar plöntur á válista, svo sem stinnasef, skógelfting og lyngbúi. Allnokkur breiða af sjávarfitjungi sem er forgangsvistgerð er kortlögð við Kirkjuból í Vöðlavík. Einnig er Víkurvatn skráð sem laukavatn sem er forgangsvistgerð. Gerpissvæðið er einnig á náttúruminjaskrá.
Mikilvægt fuglasvæði á Íslandi
Gerpir er skilgreindur sem mikilvægt fuglasvæði á Íslandi og alþjóðlega, einkum vegna stórrar fýlabyggðar sem þar er, en tegundin er skráð í hættu. Meðal sjaldgæfra fugla sem verpa eða hafa orpið eru örn og fálki. Einnig er áformað að friðlýsingin taki til Seleyjar í mynni Reyðarfjarðar. Lundabyggð er í Seley og einnig er þar talsvert æðarvarp, og telst hún alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð.
Elstu jarðlög á Austurlandi, um 14 milljón ára gömul, finnast á Gerpissvæðinu og eru þessi jarðlög tengd Barðsneseldstöðinni. Meðal annars eru þar litrík líparíthraun (Gerpisrýólít) og þykkt gjóskulag með plöntusteingerfinum.
Mynd: Umhverfisstofnun.