Kynna fyrstu drög að þéttbýli í landi Hamborgar í Fljótsdal

Fyrstu drög að skipulagi byggðakjarna í landi Hamborgar í Fljótsdal verða kynnt þar á íbúafundi í kvöld. Sveitarfélagið hefur gengið frá leigusamningi um land undir þéttbýliskjarnann sem hefur verið á teikniborðinu um nokkurra ára skeið. Sveitarstjóri segir spurn eftir bæði íbúða- og atvinnuhúsnæði í sveitinni.

Síðsumars var gengið frá leigusamningi um 20 hektara lands við eigendur eyðibýlisins Hamborgar, sem er milli Skriðuklausturs og Bessastaða. Nú liggja fyrir fyrstu drög að því hvernig byggðin geti litið út og er þar gert ráð fyrir tæplega 60 lóðum.

Landið, sem um ræðir, er ofan þjóðvegarins utan Bessastaðaár. Það er tvískipt annars vegar er um að ræða tún sem 19 lóðir eru teiknaðar inn á, hins vegar hjalla þar fyrir ofan með tæplega 40 lóðum.

Helgi Gíslason, sveitarstjóri, vonast eftir umræðum á fundinum í kvöld sem nýtist sveitarstjórn til að taka næstu skref. „Við erum að draga upp heildarmynd af því hvernig svæðið gæti litið út. Það stendur ekki til að deiliskipuleggja það allt í einu. Hvar á að byrja er eitt af því sem við vonumst til að geta rætt. Trúlega er ódýrara að byrja á túninu því við vitum að það verður dýrt að leggja veg upp á hjallann. Af honum er hins vegar betra útsýni.“

Þarf að meta hvers konar starfsemi verði á svæðinu


Ýmislegt fleira er eftir sem þarf að taka afstöðu til. Inn á drögin eru teiknaðar lóðir undir bæði einbýlishús og raðhús en Helgi segir viðbúið að óskir komu fram um stærri lóðir. Eins þurfi að ræða hvort fleira en íbúabyggð eigi að vera innan svæðisins, svo sem þjónustustofnanir á borð við skóla eða elliheimili, hvort þar eigi að leyfa dýrahald og þar fram eftir götunum.

Sveitarfélagið hefur um nokkurt skeið unnið að hugmyndum um byggðakjarna. Sumarið 2020 var kynnt skýrsla um mögulegar staðsetningar. Hamborgarlandið var meðal þeirra sem þóttu þar helst koma til greina. Um tíma var horft á land Hjarðarbóls en frá því hefur nú verið horfið.

Atvinnulífið kallar eftir húsnæði


Helgi segir talsverða þörf vera á íbúðahúsnæði í Fljótsdal, þar sem í dag eru um 100 manns skráð til heimilis. Vaxandi atvinnustarfsemi kalli á íbúðir en einnig hafi borist fyrirspurnir frá einstaklingum sem í dag búa annars staðar. Samkvæmt nýjustu húsnæðisáætlun Fljótsdalshrepps er talin þörf á 2-3 nýjum íbúðum á ári til framtíðar.

Helgi segir bygginga- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins bera þungann af vinnunni með aðstoð ráðgjafaskrifstofunnar LOGG. Sveitarstjórn vonist til að hægt sé að vinna verkefnið hratt og vel. „Við ráðgerum að klára deiliskipulag í vor þannig hægt verði að byrja framkvæmdir. Það er þó viðbúið að það taki lengri tíma en vonandi getur skipulagsvinnan hratt þannig við getum byrjað. Við erum að ljúka byggingu þjónustuhúss við Hengifoss og þetta ætti að verða næsta stóra verkefni sveitarfélagsins.“

Skipuleggja atvinnulóðir á Valþjófsstaðamelum


Auk íbúabyggðarinnar vinnur sveitarfélagið einnig að skipulagi atvinnulóða á Valþjófsstaðamelum en þeir eru neðan við félagsheimilið Végarð þar sem sorpmóttökusvæði Fljótsdælinga er í dag. Þar hafa verið teiknaðar 11 lóðir, sú stærsta 6.000 fermetrar.

Helgi segir atvinnusvæði samkvæmt aðalskipulagi en deiliskipulagi hafi ekki verið lokið. Nú sé ætlað að gera það þannig hægt sé að ganga betur frá sorpmóttökusvæðinu auk þess sem ný tækifæri opnist um leið. Hugmyndir um atvinnuhúsnæði, eða vinnuklasa, hafa verið á borðinu um nokkurt skeið og fengu nýtt líf í haust þegar fullrúi úr sveitarstjórn tók að sér að ræða við áhugasama aðila um það.

Helgi segir þar fyrst og fremst um að ræða einstaklinga eða fyrirtæki með starfsemi í sveitinni í dag en einnig hafi borist fyrirspurnir frá nýjum aðilum. Hann segir lykilatriði að þeir sem hafi áhuga ræði saman og vinni að framgangi byggingarinnar frekar en hún verði alfarið leidd af sveitarfélaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.