Setja sólarsellur upp á þak íbúðarhúss síns í Neskaupstað

Jeff Clemmensen og Þórdís Sigurðardóttir í Neskaupstað hafa lengi haft áhuga á nýjum orkukostum. Þau vinna nú með dönskum sérfræðingum að því að setja upp 42 sólarsellur á þak húss þeirra. Sellurnar eiga að geta framleitt allt að 12.000 kWst. árlega.

Jeff segir það hafa verið töluvert átak að fá leyfi fyrir sólarsellunum. Engar reglugerðir eru til staðar hérlendis og fáir, ef nokkrir, sem sótt höfðu áður um slík leyfi. Vegna þessa studdist Jeff við danskar reglur. Þær krefjast þess meðal annars að búnaður sé framleiddur án barnaþrælkunar og hægt sé að slökkva á honum utan frá ef eldur kemur upp. Heilt ár tók að fá leyfið.

Þeir aðilar sem að verkefninu standa, Jeff, Þórdís og danska fyrirtækið All Green, hafa hug á að kanna hvernig sólarsellurnar standa sig við íslenskar aðstæður. Til dæmis sé áhugavert að mæla afköstin í Neskaupstað þar sem sólin sést aðeins í tæpa 11 mánuði ársins.

„Aðstæður hér eru sérstakar, þar sem sólin hverfur á bak við fjöllin í byrjun desember og sést ekki aftur fyrr en um miðjan janúar. Þó hafa tilraunir sýnt að nýjustu sólarrafhlöðurnar eru það næmar að þær ná einhverri nýtingu þrátt fyrir skort á sólarljósi yfir veturinn,“ segir Jeff, sem telur þakið henta vel því það sé bratt og stór hlið þess snúi í suður.

Verkefnið kostar sitt og pakkinn sem kom til Íslands vegur 1,5 tonn. Settar verða upp 42 sólarrafhlöður á þak hússins með 16 kw framleiðslugetu að hámarki. Kerfinu fylgir 15 kw breytir ásamt 6 lithium-rafhlöðum til að jafna út álag og bæta nýtingu. Rafhlöður til miðlunar á orku eru stórar og auka nýtingu, en umframorku verður hægt að afhenda út á kerfið. Framtíðarsýn Jeff er að geta selt umfram raforku sem framleidd er inn á almenna dreifikerfið, eins og gert er víða í Evrópu.

Endurskin frá snjó skilar líka orku


Fulltrúar All Green fylgdu búnaðinum hingað til lands í byrjun ágúst og stóðu fyrir námskeiði í Neskaupstað. Annað slíkt er áformað mánudag og þriðjudag í næstu viku.

Jacob Boskov Stender, eigandi og tæknistjóri All Green, segist spenntur fyrir þessu fyrsta verkefni þess á Íslandi. Hann telur sólarsellurnar geta virkað vel hérlendis þrátt fyrir kulda og myrkur. Kaldara hitastig getur í raun aukið skilvirkni sólarsella, og endurskin frá snjó og sjó getur hjálpað til við orkuframleiðslu. Til að mæta íslenskum aðstæðum hafa festingar fyrir sólarsellurnar verið styrktar til að þola vind allt að 60 m/s.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.