Þúsundasti laxinn veiddur í Jöklu

Nýtt veiðimet var sett í Jökulsá á Dal í morgun þegar þúsundasti laxinn á þessu sumri var veiddur. Leigutaki árinnar segir árangurinn sumar koma ánni á kortið sem einni af bestu veiðiám landsins.

Það var Guðrún Smáradóttir úr Neskaupstað sem veiddi þúsundasta laxinn í Jöklu og hliðarám hennar nú í morgun. Eins og venjan er með stórviðburði í ánni þá var haldið upp á áfangann með pönnukökukaffi í veiðihúsinu í Hálsakoti þar sem Guðrún Friðriksdóttir bakar.

Þorvaldur P. Hjarðar, formaður Veiðifélags Jöklu, óskaði þar Þresti Elliðasyni, framkvæmdastjóra Veiðiþjónustunnar Strengja sem er með ána á leigu, til hamingju með árangurinn. „Það er frábær tilfinning að hafa náð þessu markmiðið sem við höfum unnið að síðan byrjað að var að byggja upp vatnasvæðið árið 2007.

Veiðin hefur verið góð í mörg ár en uppbyggingin hefur tekið lengri tíma en ég bjóst við. Við höfum lagt í þetta mikið fjármagn við að gera þetta eins vel og hægt er með að sleppa miklu af seiðum, byggja upp veiðihús og bæta alla aðstöðu. Fyrst nú í sumar er þetta farið að skila sér í eftirspurn,“ segir Þröstur.

Jökla seint á yfirfall


Fram til ársins 2007 var Jökla jökulá en varð að tærri bergvatnsá með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar þegar jökulvatninu var veitt austur í Jökulsá í Fljótsdal. Lónið fyllist hins vegar síðsumars þannig Hálslón fer á yfirfall og þá flæðir jökulvatn aftur niður Jöklu sem um leið bindur enda á veiðisumarið.

Í fyrra fór áin á yfirfall í byrjun ágúst enda urðu laxarnir þá 645. Einstaklega þurr vetur og vor hafa leitt til þess að vatnsstaða Hálslóns var sögulega lág í byrjun sumars og því er áin ekki enn komin á yfirfall.

„Að meðaltali fer áin á yfirfall í lok ágúst. Nú eigum við von á að hún fari á yfirfall um miðjan september, jafnvel síðar. Eftir að áin er komin á yfirfall er hægt að veiða í hliðaránum Kaldá, Laxá og Fögruhlíðará. Þar geta nokkrir menn verið við veiðar þótt það sé ekki jafn mikið af laxi og í Jöklu.“

Laxinn gengur lengur á Norðausturlandi


Eins og tölurnar bera með sér hefur veiðin í Jöklu gengið mjög vel í sumar, þótt eins og alltaf sé dagamunur. „Þegar við byrjuðum í júní voru flóð og á ýmsu gekk í veðri en eftir að þau sjötnuðu hefur verið stanslaus veiði. Enn í dag eru að veiðast nýgengnir laxar. Það er óvenjulegt fyrir landið í heild en lax gengur almennt lengur á Norðausturhorninu en annars staðar.

Við erum enn að veiða einhverja tugi laxa á dag, en síðan dettur veiðin niður þess á milli vegna aðstæðna. Í byrjun vikunnar var bæði hvasst og svo kom litur á ána vegna leysinga í kringum Snæfell en helgin lítur vel út.

Við höfum fengið mikið af smálaxi en líka töluvert af stórlaxi. Ég held að miðað við grófar tölur hafi fáar ár gefið jafn marga laxa í stærri kantinum,“ segir Þröstur.

Veiðihúsið í Hálsakoti bætt á hverju ári


Samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga, sem teknar eru saman á hverjum miðvikudegi, er Jökla í níunda sæti yfir þær ár sem hafa skilað flestum löxum í sumar. Tvisvar áður, árin 2022 og 2015, hefur veiðin farið í yfir 800 laxa.

Framkvæmdir í Hálsakoti eru hluti af þeirri uppbyggingu sem fylgir veiðinni. „Hér var félagsheimili sem við keyptum og breyttum í samkomuhús til að þjónusta veiðimenn. Við höfum síðan byggt aðstöðu við hliðina fyrir gistingu og starfsmenn. Við höfum stækkað á hverju ári þannig hér er orðið lítið þorp enda þarf svona starfsemi góða þjónustu og aðstöðu.“

Þess vegna horfir Þröstur björtum augum til framtíðarinnar. „Við erum vongóð um sölu veiðileyfa á næsta ári. Jökla er núna samþykkt sem ein af bestu veiðiám landsins og er komin til að vera,“ segir Þröstur.

Gudrun Smaradottir 1000laxar Web
Halsakot Veidihus Web
Jokla 1000laxar 2024 0032 Web
Jokla 1000laxar 2024 0040 Web
Jokla 1000laxar Ponnukokur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.