Kynna tillögu að matsáætlun umhverfisáhrifa fyrir Fjarðarheiðargöng

Vegagerðin hefur lagt fram tillögu að matsáætlun umhverfisáhrifa fyrir Fjarðarheiðargöng. Matið snýst fyrst og fremst um þrjár veglínur sem í boði eru í kringum Egilsstaði.

Veglínurnar flokkast í norðurleið, suðurleið og miðleið. Búið er að velja gangamunnanum Héraðsmegin stað í landi Dalhúsa á Eyvindarárdal en eftir er að ákveða hvar vegurinn á að liggja.

Svokölluð norðurleið fer í átt til Egilsstaða meðfram Eyvindará að austanverðu en síðan í meðal annars í gegnum land Miðhúsa, Steinholts og Eyvindarár áður en hún kemur niður á þjóðveginn skammt frá flugvellinum á Egilsstöðum með brú yfir ána við Melshorn.

Í athugasemdum Vegagerðarinnar um þá leið segir að hún sé erfið vegna bratta og brekkna á leiðinni sem þýðir að sjónlínur verði takmarkaðar á veginum. Þá er bent á að raflínur Landsnets á svæðinu þrengi að veginum. Þá yrði með þessari línu leiðin í gegnum Egilsstaðaskóg upp á Fagradal lögð af.

Reyndar er almennt gert ráð fyrir að vegurinn verði færður af Egilsstaðahálsi að Eyvindaránni, enda þykir veðurfar á veturna ekki gott á núverandi vegi. Suðurleiðin og miðleiðin fylgja því sömu leið frá gangamunnanum. Gerð verður brú við hann yfir Eyvindaránni og henni síðan fylgt að mestu niður að Egilsstöðum.

Þar greinir þær í sundur. Miðleiðin fylgir núverandi Fagradalsbraut í gegnum bæinn. Í athugasemdum Vegagerðarinnar segir að sú lína sé á margan hátt þægilegust og hafa minnstar breytingar í för með sér meðan norðurleiðin hefði mest áhrif. Auka þarf þó umferðaröryggi á Fagradalsbraut.

Suðurleiðin yrði hins vegar lögð fyrir innan og ofan bæinn. Segir í athugasemdum með henni að við það þyrfti að leggja í alla mikla vegagerð.

Aðeins ein veglína er í boði Seyðisfjarðarmegin. Hún liggur að hluta yfir vatnsverndarsvæði og þverar núverandi golfvöll Seyðfirðinga en byrjað er að skoða lausnir þar á. Þar verður gangamunninn við Gufufoss.

Í tillögunum er gerð grein fyrir framkvæmdinni og þeim rannsóknum sem gera þarf vegna hennar en stór hluti þeirra er annað hvort hafinn eða lokið. Þá er komið inn á mótvægisaðgerðir vegna umhverfisspjalla, svo sem endurheimt gróðurs.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 10. nóvember. Gert er ráð fyrir að frummatsskýrsla vegna umhverfisáhrifa liggi fyrir í september 2021, endanleg matsskýrsla í janúar 2022 og álit Skipulagsstofnunar fjórum vikum síðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.