Kynna tillögu að matsáætlun umhverfisáhrifa fyrir Fjarðarheiðargöng
Vegagerðin hefur lagt fram tillögu að matsáætlun umhverfisáhrifa fyrir Fjarðarheiðargöng. Matið snýst fyrst og fremst um þrjár veglínur sem í boði eru í kringum Egilsstaði.Veglínurnar flokkast í norðurleið, suðurleið og miðleið. Búið er að velja gangamunnanum Héraðsmegin stað í landi Dalhúsa á Eyvindarárdal en eftir er að ákveða hvar vegurinn á að liggja.
Svokölluð norðurleið fer í átt til Egilsstaða meðfram Eyvindará að austanverðu en síðan í meðal annars í gegnum land Miðhúsa, Steinholts og Eyvindarár áður en hún kemur niður á þjóðveginn skammt frá flugvellinum á Egilsstöðum með brú yfir ána við Melshorn.
Í athugasemdum Vegagerðarinnar um þá leið segir að hún sé erfið vegna bratta og brekkna á leiðinni sem þýðir að sjónlínur verði takmarkaðar á veginum. Þá er bent á að raflínur Landsnets á svæðinu þrengi að veginum. Þá yrði með þessari línu leiðin í gegnum Egilsstaðaskóg upp á Fagradal lögð af.
Reyndar er almennt gert ráð fyrir að vegurinn verði færður af Egilsstaðahálsi að Eyvindaránni, enda þykir veðurfar á veturna ekki gott á núverandi vegi. Suðurleiðin og miðleiðin fylgja því sömu leið frá gangamunnanum. Gerð verður brú við hann yfir Eyvindaránni og henni síðan fylgt að mestu niður að Egilsstöðum.
Þar greinir þær í sundur. Miðleiðin fylgir núverandi Fagradalsbraut í gegnum bæinn. Í athugasemdum Vegagerðarinnar segir að sú lína sé á margan hátt þægilegust og hafa minnstar breytingar í för með sér meðan norðurleiðin hefði mest áhrif. Auka þarf þó umferðaröryggi á Fagradalsbraut.
Suðurleiðin yrði hins vegar lögð fyrir innan og ofan bæinn. Segir í athugasemdum með henni að við það þyrfti að leggja í alla mikla vegagerð.
Aðeins ein veglína er í boði Seyðisfjarðarmegin. Hún liggur að hluta yfir vatnsverndarsvæði og þverar núverandi golfvöll Seyðfirðinga en byrjað er að skoða lausnir þar á. Þar verður gangamunninn við Gufufoss.
Í tillögunum er gerð grein fyrir framkvæmdinni og þeim rannsóknum sem gera þarf vegna hennar en stór hluti þeirra er annað hvort hafinn eða lokið. Þá er komið inn á mótvægisaðgerðir vegna umhverfisspjalla, svo sem endurheimt gróðurs.
Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 10. nóvember. Gert er ráð fyrir að frummatsskýrsla vegna umhverfisáhrifa liggi fyrir í september 2021, endanleg matsskýrsla í janúar 2022 og álit Skipulagsstofnunar fjórum vikum síðar.