LÍÚ segir skötuselsfrumvarpið ekki sjálfbæra nýtingu

Agl.is hefur borist athugasemd frá LÍÚ vegna fréttatilkynningar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um skötuselsfrumvarpið svokallaða. Hér er athugasemd LÍÚ birt í heild sinni:

" Núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, brýtur blað í sögu fiskveiðistjórnunar á Íslandi með því að óska eftir lagaheimild frá Alþingi til þess að fá að ofveiða tiltekinn fiskistofn, skötusel, sem nemur 80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunarinnar. Þessi beiðni ráðherra er í algerri mótsögn við þá ímynd sem Ísland hefur skapað sér á meðal ábyrgra fiskveiðiþjóða. Þá er hún í fullkominni andstöðu við yfirlýstar áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um mikilvægi sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.
 
Í svokölluðu skötuselsfrumvarpi ráðherra er eftirfarandi heimildarákvæði: „Á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar, auk aflaheimilda sem úthlutað er á grundvelli laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, allt að 2.000 lestir af skötusel hvort fiskveiðiár.“

Í fréttatilkynningu ráðuneytisins fyrr í dag segir að með gagnrýni sinni reyni Landssamband íslenskra útvegsmanna að gera umrætt ákvæði frumvarpsins ótrúverðugt. Jafnframt er látið að því liggja að komi til þess verði heimildin aðeins nýtt að litlum hluta. Það breytir þó engu um það að ákvæðið hljóðar upp á 2.000 tonn, 80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Undan því verður ekki vikist.

LÍÚ óskaði fyrr í vetur eftir áliti Hafrannsóknarstofnunarinnar á áhrifum þess á skötuselsstofninn að auka afla úr 2.500 tonnum í 4.500 á næstu tveimur árum. Í svari stofnunarinnar segir m.a.: „... mun aukning afla í 4500 tonn á næstu tveimur árum því að öllum líkindum leiða til þess að mjög gangi á uppvaxandi árganga og stofninn fari hratt minnkandi.“ Jafnframt segir í svari stofnunarinnar að ákvæðið „samrýmist ekki stefnu um sjálfbæra nýtingu“ og ennfremur að það „geti varla talist ábyrgar fiskveiðar eða varúðarnálgun við stjórn fiskveiða ef verulega er farið fram úr ráðgjöf sem miðast við að nýta uppvaxandi árganga, jafnvel þótt stofn sé í vexti.“ "
 
Segir í athugasemd frá LÍÚ sem bars vefnum. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.