Ólafur Arnarson: Ef ekkert breytist fljótt þá stefnir í annað bankahrun

olafur_arnarsson_feb13.jpg
Hagnaður bankanna undanfarin ár hefur verið búinn til í töflureiknum og á pappír. Hrægammar sem keypt hafa bankana keyra áfram íslenska skuldara á sama tíma og vanskil eru meiri hér en í nágrannalöndum okkar. Ef ekkert verður að gert stefnir í annað bankahrun.

Þetta sagði Ólafur Arnarson, ritstjóri vefmiðilsins Tímaríms, í framsöguræðu sinni á opnum fundi Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar á Egilsstöðum í síðustu viku.

„Hagnaður bankanna frá hruni hefur numið 300 milljörðum króna. Hann er samt bara til á Excel og pappír. Bankarnir eru í eigu hrægamma sem hafa uppreiknað lánin okkar og innheimta þau á fullu. Þetta er bara froðuhagnaður. Við verðum að verja raunhagkerfið og láta bankana þjóna heimilunum og atvinnulífinu.“

Vanskil íslenskra lántaka nema 20% en Ólafur segir að hlutfallið í nágrannalöndum okkar vera 2%. Þá fullyrti hann að vanskilavandinn hérlendis væri vanreiknaður. „Ef ekkert breytist fljótt þá stefnir í annað bankahrun.“

Hann varaði sterklega við hugmyndum um að íslensku lífeyrissjóðirnir keyptu Íslandsbanka eins og sögur hafa gengið um. „Slíkt skapar nýja áhættu fyrir lífeyrissjóðina því þeir eru bara að kaupa pappírshagnað. Slík kaup verður að stöðva með góðu eða illu.“

Áhyggjurnar mola hamingjuna

Ólafur kallaði afnám verðtryggingar af neytendalánum réttlætismál. Hann sagði að fólk hefði sífellt minna á milli handanna og gæti leyft sér minna. Allt væri frosið í efnahagslífinu. „Við getum ekki boðið börnunum upp á hið sama og áður. Áhyggjurnar mola hamingjuna.“

Þá lýsti hann áhyggjum sínum af vaxandi stéttskiptinu í landinu. „Millistéttin er að hverfa. Við erum að búa til undir- og yfirstétt. Yfirstéttin hefur alltaf átt allt en undirstéttin þarf að veðsetja allt.“

Ólafur líkti íslenskum neytendum við galeiðuþræla. Þeir væru lokkaðir í viðskipti með laglegum auglýsingum en síðan væri járnunum smellt og neytendurnir látnir róa. Vandamálið væri að efnahagsgaleiðan snérist í hringi. Yfirstéttin, sem ætti að vera undir árunum hinum megin, léti sig vanta. „Bankakerfið er uppi á þilfari að súpa á mojito.“

Telur verðtrygginguna ólöglega

Ólafur gagnrýni einnig peningastefnunefnd Seðlabankans sem reynt hefur að koma böndum á verðbólguna í landinu með stýrivöxtum. „Í peningamálastefnunefnd Seðlabankans virðast sitja þeir fimm menn sem ekki skilja að verðbólgan verður ekki hamin með stýrivöxtum.“

Ólafur kvaðst ekki áfellast þá menn sem árið 1979 komu á verðtryggingunni. Þeir hefðu brugðist við vandanum sem þá var og komið á sanngjörnu kerfi þar sem verðtryggingin var bæði á launum og lánum. Verðtrygging lána var afnumin fjórum árum síðar.

Hann sagðist telja verðtrygginguna í dag ólöglega. „Verðtrygging er lánssamningur með innbyggðri afleiðu og það er ólöglegt. Það á að vera hægt að breyta henni með vísan í evrópska neytendalöggjöf.“

Koma þarf á virki samkeppni milli bankanna

Að mati Ólafs er þó ekki nóg að afnema verðtrygginguna. Hann segir að koma þurfi á virkri samkeppni á bankamarkaði og skaut þar föstum skotum að Samtökum fjármálafyrirtækja þar sem hann sagði fara fram öflugra samráð en í Öskuhlíðinni forðum.

Óverðtryggð lán segir hann aðeins standa þeim til boða sem ekki töpuðu í hruninu og afnema þurfi stimpilgjaldið þannig menn geti flutt sig á milli banka. Setja þurfi vaxtaþak og tryggja fasta vexti á lánum til þriggja til fimm ára í senn. 

Áhrif verðbólgunnar þurfi líka að lenda á bönkunum en ekki bara neytendum. Ólafur ásakaði Landsbankann um að hafa tekið stöðu með verðbólgunni gegn heimilunum.

Aðspurður um hvers vegna verðtryggingin hefði ekki verið afnumin nú þegar svaraði hann að þar væri um hagsmunabaráttu væri að ræða. „Þessir ríku hagsmunir bankakerfisins hafa haft sitt að segja. Fjármálakerfið er miklu öflugri hagsmunaaðili heldur en heimilin. Þau bjóða ekki þeim sem ráða í laxveiði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar