Ólafur Ragnar: Bessastaðir síðasta stoppistöðin sem hindrar að landið verði stjórnlaust

olafurogdorrit_0008_oli.jpg
Bessastaðir eru síðasta tækifæri þjóðarinnar til að grípa inn í sé hún ósátt við ákvörðun Alþingis. Hlutverk forsetans er að vera milligöngumaður þegar slík gjá myndar á milli þings og þjóðar að mati Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann segir nauðsynlegt að næst forseti beiti sér fyrir að fækka stórum ágreiningsmálum sem kljúfi þjóðina.

„Málskotsrétturinn er staðfesting á þeim lýðræðislega skilningi forustumanna sjálfstæðisbaráttunnar að þjóðin sjálf hafi lokaorðið. Forsetinn er milligöngumaður mill þjóðar og þings þegar þjóðin er ósátt við þingið,“ sagði Ólafur Ragnar á framboðsfundi á Hóteli Héraði í gærkvöldi.

Hann hafnaði því að málskotsrétturinn væri „húsgagn á Bessastöðum sem forsetinn leikur sér að“ eins og margt „yngra fjölmiðlafólk“ hefur haldið fram. Ólafur Ragnar benti á Icesave-deilan hefði sýnt fram á hversu mikilvægt þetta vald væri.

„Bessastaðir eru síðasta stoppistöðin sem þjóðin hefur. Samstaða þjóðarinnar jókst eftir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna í Icesave-málinu. Ég held að enginn treysti sér lengur til að standa upp og styðja þann samning.“

Eftir að samningnum var hafnað kom forsetinn víða fram í erlendum fjölmiðlum og ræddi málstað Íslands. Hann segir það vaxandi þátt í hlutverki forsetans að því „alþjóðlega fjölmiðlakerfi sem búið til álit á þjóðum.“ Álitið á Íslandi hafi verið orðið lítið í ársbyrjun 2010 og því hafi hann „talið nauðsynlegt að fara fram á völlinn og gerast málsvari Íslands og leiðrétta rangfærslur. Það tókst að snúa taflinu við.“

Glæfraspil að hafa landið án ríkisvalds

Ólafur Ragnar ræddi einnig hlutverk forsetans við myndun ríkisstjórna og möguleika á hugsanlegri utanþingsstjórn. „Á örlagatímum getur skipt sköpum hvaða afstöðu forsetinn tekur,“ sagði hann snemma á fundinum. Síðar bætti hann við að það væri ábyrgð forsetans að landið yrði ekki stjórnlaust.

„Bessastaðir eru líka síðasta stoppistöðin til að tryggja að landið verði ekki stjórnlaust.“ Forsetinn benti á að þótt myndun síðustu ríkisstjórna hefði svo ekki alltaf verið. Á ýmsu hefði gengið, sérstaklega fyrstu þrjátíu árin í sögu íslenska lýðveldisins. „Hinir yngri hafa ekki hið sögulega minni sem ég veit að mörg ykkar í þessum sal hafið.“

Ólafur Ragnar sagðist hafa litið á það sem skyldu sína í upphafi árs 2009, þegar hávær mótmæli stóðu yfir gegn þáverandi ríkisstjórn, að vera tilbúinn að „þurfa að skipa utanþingsstjórn. Það hefði verið glæfraspil að hafa landið án ríkisvalds, jafnvel í nokkrar klukkustundir.“

Óvissa í næstu þingkosningum

Forsetinn benti á að blikur væri á lofti fyrir þingkosningarnar næsta vor. „Margir nýir flokkar eru í framboði og ólga innan þeirra eldri. Það veit enginn hvað kemur út úr næstu þingkosningum.“

Ólafur Ragnar telur að næsta forseta bíði vinna við að sameina ólíkar raddir í þjóðfélaginu. „Tíu prósenta traust á Alþingi er hættumerki. Það verður að leiða saman ólíka aðila til að fækka stórum árgreiningsmálum sem valda því að þjóðin er hvað eftir annað að slíta sig í sundur á.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar