Ólafur Ragnar: Enginn valdhafi stenst vald fólksins

olafur_ragnar_ungt_folk.jpg
Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, segir að samfélagsmiðlar séu að breyta sýn og þátttöku fólks í lýðræði. Valdhafar geti ekki lengur stýrt því hvaða málefni eru til umræðu. Þetta kom fram í máli forsetans á ráðstefnunni  „Ungt fólk og lýðræði“ á Hvolsvelli í morgun.  
 
„Stjórn upplýsingaflæðis er ekki lengur í höndum auðmanna eða valdamanna. Hægt er að  koma á heimshreyfingu á nokkrum dögum,“ sagði Ólafur Ragnar í ávarpi sínu.

Hann ræddi um hversu öflug vopn miðlar á borð við Twitter og Facebook eru fyrir ungt fólk sem vill koma skoðunum sínum á framfæri og láta gott af sér leiða.  „Hver og einn getur búið til sinn eigin fjölmiðil.“
 
Mótmælendur beygðu Obama 
 
Ólafur Ragnar nefndi dæmi um hvernig Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefði neyðst til að endurskoða stefnu sína í málefnum Egyptalands því mótmælendur í Kairó, sem notuðu miðlana til að koma boðum sín á milli, höfnuðu henni áður en hann hafði lokið máli sínu. 

„Enginn valdhafi stenst sameinað vald fólksins. Lýðræðið er háð umhverfi og skipulagi þjóðfélagsins á hverjum tíma. Það er ekki regluverkið í kringum kosningar á fjögurra ára fresti.“

Ungmennaráð nauðsynleg 
 
Þátttakendur í ráðstefnunni eru flestir á aldrinum 16-20 ára úr ungmennaráðum sveitarfélaganna en þeim hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Ólafur Ragnar telur ráðin jákvæða þróun. „Það er nauðsynlegt að hafa ungmennaráðin. Ungt fólk veit að það getur haft áhrif,“ sagði hann og vék enn einu sinni orðum sínum að tækninni. „Þið hafið valdið bókstaflega í hendi ykkar. Að sama skapi er það ekki afsökun aðrir eigi að gera hlutina.“
 
Tek vilja fólksins af auðmýkt 
 
Kjörtímabil Ólafs Ragnars í embætti forseta rennur út í sumar. Hann hefur gefið það út að hann vilji sitja áfram. Herdís Þorgeirsdóttir, lagaprófessor á Bifröst tilkynnti í dag um framboð sitt. Áður höfðu Ástþór Magnússon og Jón Lárusson tilkynnt um hið sama.

„Úrslitin eru aldrei gefin. Það er fólkið í landinu sem myndar sér skoðun á því hvern það vill. Almenningur á Íslandi tekur rétt sinn til að kjósa forseta mjög alvarlega. Ég mun beygja mig af fullri auðmýkt fyrir vilja fólksins í landinu.“
 
Agl.is styður við ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði 2012 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.