Lagði fram frumvarp um friðun Seyðisfjarðar fyrir sjókvíaeldi
Eitt af allra síðustu verkum Jódísar Skúladóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi Íslendinga í bili var að leggja fram frumvarp til laga um friðun Seyðisfjarðar fyrir sjókvíaeldi. Því frumvarpi var dreift á Alþingi fyrir helgi.
Jódís eini flutningsmaður frumvarpsins en hún er sem kunnugt er að taka sín allra síðustu skref sem þingmaður eftir að blásið var til kosninga í lok þessa mánaðar en hún er ekki í framboðshóp VG fyrir komandi kosningar.
Með frumvarpinu er lagt blátt bann við eldi laxfiska í Seyðisfirði innan línu frá Sléttanesi í Skálanes. Margvíslegar ástæður fyrir slíku banni sem lúta meðal annars að þjóðaröryggi, öryggi sjófarenda og almennri náttúruvernd og sjálf segir Jódís ekki minna mál að virða skoðanir heimamanna en kannanir hafa sýnt að stór meirihluti íbúa er sjókvíaeldi mótfallinn.
„Ég er reyndar enn á fullu í fjárlaganefnd þingsins enda þar flest þau stóru mál sem brýnt er að klára enda fjölmörg mál sem tengjast þeim með einum eða öðrum hætti. Ég geri ráð fyrir að við verðum að störfum þar fram í miðjan mánuð eða svo. Varðandi frumvarpið um Seyðisfjörð þá mat ég það svo að það skipti máli að koma öllum þeim málum sem ég hef verið að vinna að út áður en ég hætti. Láta skrá þau og útbýtta en það þýðir að þau birtast í þingtíðindum. Auðvitað klárast svona þingmannamál aldrei en það skiptir máli að gera gögnin opinber svo ef einhver vill láta leggja slíkt fram aftur síðar eða ef hagsmunaðilar vilja koma fram með athugasemdir þá er kannski hægt að styðjast við þetta frumvarp.“
Jódís segir að þó hún sé eini flutningsmaður frumvarpsins hafi fólk komið að máli við hana í kjölfar birtingarinnar og lýst áhuga á að koma að málinu sem meðflutningsmenn. Frumvarpið má sjá í heild sinni hér.