Landsbankinn fer fram á nauðungarsölu á Eiðum

Jörðin Eiðar með húseignum Alþýðuskólans verður að óbreyttu boðin upp á nauðungaruppboði í næstu viku að beiðni Landsbankans.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Austurland er svokölluð framhaldssala eignarinnar fyrirhuguð þriðjudaginn 5. nóvember, nema afturköllun berist frá bankanum.

Landsbankinn óskaði eftir nauðungarsölunni í maí og hófst uppboðsferlið með tilkynningu sýslmanns sem dagsett er 2. ágúst og birtist hún í Lögbirtingarblaðinu í september. Þann 9. október hófst svo uppboð fasteignarinnar. Framhaldssalan er svo fyrirhuguð í næstu viku.

Samkvæmt gögnum sem fylgja uppboðinu nemur skuldin, sem hvílir á Eiðum rúmum 185 milljónum króna. Núverandi eigandi Eiða eru Heimiliskaup ehf. en upphaflegur útgefandi veðskuldabréfs er Stóra þinghá ehf., sem á árunum 2001-2007 hét Eiðar ehf. Fyrirsvarsmaður beggja fyrirtækjanna er Sigurjón Sighvatsson. Landsbankinn er skráður á sjötta veðrétt.

Í beiðni bankans kemur fram að nýtt veðskuldabréf hafi verið gefið út þann 25. júní 2012, en frá þeim degi reiknast vextir kröfunnar. Með því var veitt 90 milljóna lán til 25 ára og átti fyrsta afborgun að vera þann 25. ágúst 2014. Krafan hefur hins vegar verið í vanskilum frá þeim degi. Samkvæmt yfirliti hefur einu sinni verið greitt inn á skuldina við bankann.

Samningsvextir fyrstu tvö árin standa nú í tæpum 80 milljónum króna og dráttarvextir frá 25. ágúst 2014 eru tæpar 80 milljónir. Með öðrum gjöldum stendur krafa bankans því í tæpum 185,7 milljónum króna.

Land Eiðajarðarinnar er 733 hektarar að flatarmáli, þar af eru 35 hektarar ræktaðs lands. Innan landamerkjanna er bæði stórhluti Eiðaskógar, Eiðavatns og Eiðahólmi. Þar er einnig húsnæði sem áður tilheyrði Alþýðuskólanum á Eiðum svo sem kennsluhús, nemendagarðar og íbúðarhúsnæði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.