Landsel fjölgar við Austfirði
Landsel hefur fjölgað við Austfirði á undanförnum árum samkvæmt nýjustu talningum. Stofninn er þó í lágmarki og því er lagt til að allar veiðar verði bannaðar. Nauðsynlegt er að kanna frekar hvað það er sem heldur stofninum niðri.Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar og veiðiráðgjöf sem birt var í gær.
Stærsta sellátur Austfjarða er í kringum Jökulsá á Dal þar sem 303 selir sáust við talningu seinni part síðasta sumar. Selum hefur fjölgað verulega þar frá 2011 þegar þeir voru 249 á svæðinu.
Mikil fjölgun í Berufirði
Önnur lykilsvæði á Austfjörðum eru Álftafjörður, þar sem voru 133 selir í fyrra og hafði þeim fjölgað um rúm 10% frá 2011. Í Berufirði voru þeir 99 í fyrra en voru 40 í talningunni 2011. Fjölgun er einnig í Bakkaflóa og Breiðdalsvík en þau svæði eru mun minni.
Enginn selur hefur sést við Dalatanga í síðustu talningum en þeir voru 27 talsins árið 2011. Í Héraðsflóa hefur þeim einnig fækkað um fimmtung á tímabilinu, eða úr 72 í 56. Fækkun hefur einnig verið í Húsavík, úr 14 í 5.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að engin merkjanleg breyting sé á stofnstærð landsels þegar horft er á Austfirði í heild. Tölurnar benda þó til jákvæðrar þróunar, stofninn eystra er talinn hafa vaxið um 17% eða úr 530 upp í 624. Helst er bent á að merkja megi jákvæða þróun í Berufirði og neikvæða í Húsavík.
Stofninn í lágmarki
Landselsstofninn stendur veikt á landsvísu. Hann er talinn hafa verið 9434 dýr í fyrra sem er betra en árið 2016 þegar hann var metinn 7652 dýr. Það var minnsti stofn frá því talningar hófust árið 1980. Þá var stofninn ríflega 33.000 dýr. Honum fækkaði hratt á níunda áratugnum og var kominn niður í 15.000 í lokin. Þá var leyfilegt að veiða sel en Hafrannsóknastofnun leggur nú til bann. Markmiðið er að halda stofninum í kringum 12.000 dýr. Breytingar nú frá síðustu mælingum eru taldar óverulegar sem bendi til þess að stofninn sveiflist í kringum lágmarksstærð.
Líkt og á öðrum svæðum fækkaði landsel verulega við Austfirði á árunum 2011-2018. Fyrir árabilið 2011-2018 er aukning aðeins merkjanleg á Austfjörðum og Suðurlandi, þar sem stærstur hluti stofnsins er.
Ferðamenn geta truflað dýrin
Skýrsluhöfundar segja ítarlegri rannsóknir skorta á ástæðum fyrir stöðu selastofnsins. Í fyrsta lagi þurfi að bæta vöktun. Í dag er flogið yfir selalátur einu sinni og þau mynduð, en æskilegt sé að fara þrisvar sinnum yfir. Selirnir geti styggst við flugið og skriðið út í sjó þar sem þeir sjást ekki.
Eins er varað við áhrifum ferðamanna sem vilja margir sjá seli en geta haft truflandi áhrif á þá á viðkvæmum tíma. Lagt er til að reynt verði að takmarka áhrif af mannfólki á selina, einkum í maí og ágúst er þeir kæpa og skipta um ár.
Hvatt er til að leitað verði leiða til að draga úr meðafla landsels við veiðar. Í skýrslunni er vísað til þess að í lögum eigi að skrá allan meðafla en gögn bendi til þess að aðeins sé látið vita af litlum hluta þeirra sela sem slæðist í netin. Enn fremur þurfi að rannsaka áhrif af umhverfisbreytingum og fæðuframboði á selina.