Landsnet kannar skemmdir eftir storminn

Starfsmenn Landsnets kanna nú skemmdir sem urðu á flutningslínum raforku milli landshluta í óveðrinu sem gekk yfir Austurland á sunnudag og mánudag. Útleysing á línunni milli Fljótsdalsstöðvar og álvers Alcoa Fjarðaráls í Reyðarfirði hratt af stað keðjuverkun sem varð til þess að hálft landið varð rafmagnslaust.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er ekki enn fyllilega ljóst hvað varð til þess að Fljótsdalslína 4 leysti út klukkan kortér yfir 12 á sunnudag en það er talið veðurtengt.

Við útleysinguna fór hins vegar af stað mikil keðjuverkun. Samhliða línunni duttu út stór hlutu launavirkjana álversins og við það lækkaði spenna þar en næst datt út kerskáli.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að við venjulegan kringumstæður hefðu kerfisvarnir átt að einangra Fljótsdalsstöð og Fjarðarál frá Byggðalínunni. Athugun er hafin á hvers vegna það gerðist ekki.

Þess í stað hafi mikil orka frá Fljótsdalsstöð flætt inn á Byggðalínuna sem er of veik til að ráða við það. Aflskortur í kerfinu í kjölfarið hafi orði til þess að virkjanir í Blöndu, Kröflu og Þeistareykjum hafi leyst upp. Það hafi leitt til kerfishruns sem varð til þess að rafmagnslaust varð á svæðinu frá Blönduósi að Höfn í Hornafirði hálftíma eftir að útleysinguna á Fljótsdalslínu.

Strax hafi verið farið í að byggja upp kerfið. Það hafi tekist fljótt á Norðurlandi en tafðist eystra vegna tæknilegra vandamála með tengivirki á svæðinu.

Starfsmenn Landsnets nýttu gærdaginn til að skoða línurnar sem fóru út. Engar sjáanlegar skemmdir eru á Fljótsdalslínu 4 en minnst fimm staurastæður eru brotnar í Kröflulínu 2, sem kalla má gömlu byggðalínuna skammt frá Vegaskarði. Línan er byggð upp með tréstaurum á svæðinu milli Fljótsdals og Kröflu árið 1978.

Nýja byggðalínan, Kröflulína 3 sjá til þess að ekkert straumleysi varð þegar eldri línan skemmdist. Steinunn segir að leiða megi líkum að því að enn frekara straumleysi hefði orðið ef nýja línan hefði ekki verið komin í notkun. Áfram verður farið meðfram Kröflulínu 2 næstu daga í leit að frekari skemmdum.

Þá er einnig ljóst að stæða er brotin í Hólalínu 1, milli Teigarhorns í Berufirði og Hóla í Hornafirði en talsverðar truflanir urðu á þeim slóðum í nótt vegna seltu.

Rafmagnsleysið á sunnudag hafði áhrif á ýmsa starfsemi. Samkvæmt upplýsingum frá RÚV duttu langbylgjusendar á Eiðum og Gufuskálum úr leik í stuttan tíma.

Á Vopnafirði er varaaflstöð sem sinnt getur byggðarlaginu. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik var stöðin ræst en ekki náðist að keyra afl þaðan inn á dreifikerfið áður en rafmagn komst á aftur frá Landsneti. Við aðstæður eins og á sunnudag taki alltaf tíma að meta og koma í gang aðgerðum.

Myndir: Landsnet

krofulina2 brotin2 sept22 landsnet web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.