Landsnet: Álverin eru ekki aðalskaðvaldur raforkukerfisins
Forstjóri Landsnets segir það ekki rétt að tíðari sveiflur í raforkukerfinu og skemmdir af þeim völdum sé stórnotendum á borð við álverin að kenna. Dreifikerfið á landsbyggðinni sé úr sér gengið. Ekki hafi fengist leyfi til að bæta það hjá sveitarfélögum sem fara með skipulagsmál.
Austurfrétt greindi í gær frá orðum Andrésar Skúlasonar, oddvita Djúpavogshrepps, sem sagði tíðar sveiflur hafa valdið tjóni sem hlaupi á milljónum á tækjum á vinnustað hans. Hann rakti þær til bilana í álverunum sem trufluðu dreifikerfið.
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að þetta sé ekki rétt. „Meginástæðan liggur fyrst og fremst í getu flutningskerfisins til að takast á við truflanir vegna mikils álags, en vissulega koma álverin eitthvað við sögu.“
Byggðalínan er fulllestuð
Hann viðurkennir að meira hafi borið á því að notendur sem tengdir eru Byggðalínunni hafi orðið meira varir við truflanir í flutningskerfinu.
„Ástæðan er fyrst og fremst sú að Byggðalínan er fulllestuð og að öllu jöfnu keyrð nálagt rekstrarmörkum sínum. Landsnet hefur því um alllangt skeið haft það á áætlun að styrkja flutningskerfið á Norður- og Austurlandi með það að markmiði að kerfið í þessum landshlutum verði álíka sterkt hvað gæði raforku og afhendingaröryggi og á suðvesturhorninu.“
Vilja byggja nýjar línur
Landsnet vill byggja 220 kV háspennulínur frá Blöndustöð til Austurlands. Þær breytingar sem fyrirtækið hefur lagt til haga hins vegar ekki fengið brautargengi „í öllum sveitarfélögum sem koma hér við sögu. Þórður vonar að það breytist og hægt verði að hefja framkvæmdir „sem fyrst.“
„Gjarnan er því haldið fram að þær styrkingar sem nauðsynlegar eru séu vegna stórnotenda. Þetta er ekki rétt og er þar nærtækast að benda á fréttir um truflanir sem hafa valdið almennum raforkunotendum óhagræði að undanförnu.
Uppbygging flutningskerfisins miðast við að þjóna almenningi og atvinnustarfsemi og greiða báðir aðilar þann kostnað sem af þessu hlýst, stórnotendur þó langmest í samræmi við nýtingu þeirra á flutningskerfinu.“