Laxeldi Kaldvíkur hlýtur virta umhverfisvottun
Fiskeldisfyrirtækið Kaldvík, áður Ice Fish Farm, hlaut í liðnum mánuði svokallaða ASC-umhverfisvottun fyrir allar sínar eldisstöðvar á Austurlandi. Sú vottun er til marks um sjálfbærni, ábyrgð og gæði í framleiðslu fyrirtækisins.
Vottun þessi er almennt talin með þeim kröfuharðari í sjávarútvegi en ASC stendur fyrir Aquaculture Stewardship Council. Alþjóða náttúruverndarsjóðurinn (World Wildlife Fund) mælir sérstaklega með ASC vottun enda séu kröfur og staðlar ASC þeir hörðustu í eldisfiskgeiranum. Vottunin tekur til sjálfbærra og öruggra starfshátta, dýravelferðar og verndunar vistkerfa í og við eldisstöðvar.
„Forsenda þess að við getum stundað þessa starfsemi á Austfjörðum er að við gerum það í sátt við náttúruna,“ sagði Roy-Tore Rikardsen, forstjóri Kaldvíkur af þessu tilefni.
„Okkur er mikið í mun að lágmarka allt rask á nærumhverfinu og starfsfólk hefur alltaf lagt sig allt fram til að tryggja það. Að fá þessa vottun er því til marks um þrotlausa vinnu okkar fólks og framleiðslu sem er í sátt við náttúruna.“
Vottanir sem þessar skipta sífellt meira máli við markaðssetningu matvæla á heimsvísu enda æ fleiri heildsöluaðilar og verslunarkeðjur sem kaupa engar vörur nema þær séu vottaðar af viðurkenndum aðilum. Framkvæmdastjóri sölumála Kaldvíkur, Guðmundur Gíslason, kom inn á þá staðreynd.
„Aðstæðurnar hérna hjá Kaldvík eru alveg hreint magnaðar og við stöndum framarlega þegar kemur að öllum öryggis- og umhverfisstöðlum. Eftirspurnin eftir Kaldvíkurlaxi eykst sífellt og því er þessi vottun liður í því að markaðssetja vöruna í hæsta gæðaflokki.“