Laxveiði í Jöklu fer vel af stað

Laxveiði í Jökulsá á Dal og hliðarám hennar fer vel af stað, eftir að Kárahnjúkavirkjun var ræst og fiskirækt hófst í ánni.

veidimenn_jokulsa.jpgFram kemur á heimasíðu Strengja að Jöklusvæðið gaf nú sumarið 2009,  319 laxa en laxveiðin sumarið 2008 var 185 laxar. Þetta er mikið stökk enda fiskræktin að komast á flug þar og ekki síður að silungsveiðin var í góðu lagi, sérstaklega í Fögruhlíðarósnum snemmsumars og einnig stórbleikjur sem ganga í Kaldá þegar líður á sumarið. Um 350 silungar eru bókaðir og þar af er eitthvað af urriða og sjóbirtingi. Mikið var um smálaxahænga og lofar það góðu með göngur tveggja ára hrygna úr sjó næsta sumar á svæðið.

Jökla ásamt þverám gaf 319 laxa sumarið 2009. Það er metveiði á svæðinu til þessa og góð aukning í laxveiðinni frá tilraunaveiðinni sem var árið áður enda seiðasleppingar farnar að hafa mikil áhrif á veiðitölur. Þó var nokkuð um lax af náttúrulegum stofni vatnasvæðisins og nokkrir stórlaxar náðust  í sjálfri Jöklu síðasta sumar.   Lax virtist ganga fyrr á svæðið heldur en áður og bætti stöðugt í göngur. Fyrsti laxinn veiddist 2. júlí og segja má að það gefi tóninn hvenær laxveiðitíminn muni hefjast í framtíðinni. Talsvert var af laxi víða á svæðinu lungann úr sumrinu, hefði verið betri nýting og fleiri veiðimenn, hefði ugglaust veiðst 100─200 löxum meira í ánum.

,,Samtals er svæðið um 50 km langt og því verður afar rúmt um veiðimenn þar. Þó er góð aðkoma  að mörgum veiðistöðum og ekki þörf á að ganga langar vegalengdir víðast hvar. Næsta sumar verður eingöngu leyfð fluguveiði frá miðjum júlí og þar til síðla í ágúst enda hentar svæðið ákaflega vel til þess. Skylt er að sleppa öllum hrygnum 65 cm og stærri og æskilegt að sleppa öllum hrygnum eða setja í klakkistur sem eru á nokkrum stöðum við árnar. Seiðasleppingar hafa heppnast ágætlega og gefur það góðar vonir um áframhaldandi aukningu í laxveiði sumarið 2010. Búumst við fastlega við að veiðitölur komandi sumars verði tvöfaldar miðað við þær sem sáust 2009.  Um er að ræða Fögruhlíðará ofan þjóðvegar ásamt neðri hluta Jöklu frá Jökuldal en svæðið innifelur Kaldá, Laxá og Fossá sem renna í Jöklu úr norðri og Hneflu sem kemur að sunnan. Þetta er gríðarlega mikið og fjölbreytt svæði þar sem veitt er í miklu vatni í Jöklu og allt niður í litlar og nettar ár eins og Laxá" segir á heimasíðu Strengja.

Veiðitölur í Jöklu og þverám hennar 2007 til 2009

                                2007   2008   2009

Jókulsá                       12       56       35

Laxá                           15       48      128

Kaldá                          75       59       93

Fögruhlíðará                 20       22       63 

Samtals laxveiði           122     185     319

Samtals silungsveiði     374     322     331

 

 Heimasíða Strengja  http://www.strengir.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.