Leggja bílum sínum á athafnasvæði Sæti til að losna við stæðisgjöld á Egilsstaðaflugvelli
Töluverð vandræði hafa hlotist af bíleigendum sem lagt hafa bílum sínum á athafnasvæði rútufyrirtækisins Sæti við flugvöllinn á Egilsstöðum til að losna við að greiða bílastæðisgjöld við flugstöðvarbygginguna sjálfa.
Þurft hefur að grípa til þess ráðs að láta fjarlægja bifreiðar sem þar hefur verið lagt að sögn eigandans Hlyns Bragasonar en þetta verið vaxandi vandamál frá því að gjaldskylda var tekin upp á stæðum við flugvöllinn snemma í sumar.
„Það er alltaf einn og einn sem þetta reynir og vinafjöldinn hefur aukist verulega eftir að tekin voru upp þessi stæðisgjöld. Það er ólíklegasta fólk að hringja og leita leyfis til að fá að leggja þarna á svæðinu hjá mér í skemmri eða lengri tíma. Svarið við þessu er einfaldlega nei og þá jafnvel þó um mína bestu vini sé að ræða. Það liggur í hlutarins eðli að ef ég gef einum leyfi þá er þetta búið.“
Hlynur segir einfalt mál að hafa upp á eigendum ef númer séu á þeim bifreiðum sem lagt er á svæðinu en þar geymir fyrirtækið nokkra af rútubílum sínum milli verkefna. „Þá sendi ég bara skilaboð á eigendurna um að bíllinn verði dreginn burt nema þeir komi og fjarlægi þá strax og það hefur haft áhrif í langflestum tilvikum.“
Hlynur hyggst á næstu dögum setja upp skilti við svæðið þar sem skýrt og skilmerkilega kemur fram að þar sé stranglega bannað að leggja og allir bílar verði undantekningarlaust fjarlægðir á kostnað eigendanna.
Svæðið sem um ræðir er við hlið Egilsstaðaflugvallar en afar margir eru ósáttir við gjaldtökuna við flugvöllinn sem hófst í júnímánuði síðastliðinn. Mynd AE