Leiðinni upp að Hengifossi lokað
Síðasta hluta gönguleiðarinnar upp að Hengifossi hefur verið lokað tímabundið. Gróður á leiðinni liggur undir skemmdum vegna vætutíðar og mikillar umferð.„Ástandið frá efsta útsýnisstaðnum og inn í gilið upp að fossinum er vont. Þar er mikil drulla í stígnum og þá færir fólk sig yfir á gróðurinn sem er viðkvæmur á þessum árstíma,“ segir Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.
Starfsmenn þjóðgarðsins hafa eftirlit með svæðinu í samvinnu við Fljótsdalshrepp en ákvörðunin var tekin í samvinnu við bæði landeigendur og Umhverfisstofnun.
Agnes segir að ákvörðunin sé fyrst og fremst tekin til að verja gróður en einnig sé hrunhætta á hluta gönguleiðarinnar. Ekki sé nýtt að gönguleiðin sé slæm í vætutíð en ástandið nú sé óvenjuslæmt.
Leiðinni var lokað um kvöldmatarleytið í gær. Frekari rigningu er spáð næstu daga en Agnes segir að ástandið verði metið á ný strax eftir páska.
Lokað er ofan Litlanesfoss en færið upp að þeim fossi er gott.
Við Hengifoss í gær. Mynd: Vatnajökulsþjóðgarður