Leiðinni upp að Hengifossi lokað

Síðasta hluta gönguleiðarinnar upp að Hengifossi hefur verið lokað tímabundið. Gróður á leiðinni liggur undir skemmdum vegna vætutíðar og mikillar umferð.

„Ástandið frá efsta útsýnisstaðnum og inn í gilið upp að fossinum er vont. Þar er mikil drulla í stígnum og þá færir fólk sig yfir á gróðurinn sem er viðkvæmur á þessum árstíma,“ segir Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Starfsmenn þjóðgarðsins hafa eftirlit með svæðinu í samvinnu við Fljótsdalshrepp en ákvörðunin var tekin í samvinnu við bæði landeigendur og Umhverfisstofnun.

Agnes segir að ákvörðunin sé fyrst og fremst tekin til að verja gróður en einnig sé hrunhætta á hluta gönguleiðarinnar. Ekki sé nýtt að gönguleiðin sé slæm í vætutíð en ástandið nú sé óvenjuslæmt.

Leiðinni var lokað um kvöldmatarleytið í gær. Frekari rigningu er spáð næstu daga en Agnes segir að ástandið verði metið á ný strax eftir páska.

Lokað er ofan Litlanesfoss en færið upp að þeim fossi er gott.

Við Hengifoss í gær. Mynd: Vatnajökulsþjóðgarður

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.