Leikmaður Einherja lést af slysförum

Erlendur leikmaður meistaraflokks kvenna í knattspyrnu hjá Ungmennafélaginu Einherja á Vopnafirði lést þar af slysförum aðfaranótt mánudags. Andlát hennar hefur haft mikil áhrif á samfélagið á Vopnafirði. Hafin er söfnun til að styrkja fjölskyldu konunnar.

Konan sem lést, við fall fram af klettum í nágrenni smábátahafnarinnar á Vopnafirði aðfaranótt mánudags hét Violeta Mitul. Hún var 26 ára gömul, fædd í Moldóvu og kom til Vopnafjarðar í vor til að spila með Einherja. Hún átti að baki um 30 landsleiki fyrir heimaland sitt.

Í tilkynningu félagsins segir að hún hafi verið góðhjörtuð, dugleg og brosmild samhliða því að vera traustur liðsmaður og fyrirmyndar knattspyrnukona. Andlát hennar sé bæði Einherja og samfélaginu á Vopnafirði mikið áfall. Hugurinn sé hjá þjálfurum hennar, samherjum og fjölskyldu sem félagið sendir hinar dýpstu samúðarkveðjur.

Þar segir ennfremur að þótt engin orð eða gjörðir græði sárin sem missirin skilji eftir sig muni félagið geta það sem það geti til að létta undir með fjölskyldu hennar og vinum sem eiga um sárt að binda.  Söfnunarreikningur fyrir fjölskyldu Violetu hefur verið stofnaður í nafni félagsins. Kennitalan er: 610678-0259 og reikningsnúmerið: 0178-05-000594

Þá hefur verið boðað til bæna- og ljósastundar í Vopnafjarðarkirkju klukkan 20:00 á morgun fimmtudag. Úr kirkjunni verður gengið upp á íþróttavöllinn þar sem kveikt verður á friðarkertum. Einherji mun selja friðarkerti til styrktar fjölskyldunni. Vopnfirðingar eru hvattir til að kveikja á kertum heima við á sama tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar