„Leikur sem hefur húmor og skemmtir fjölskyldum, vinum og spilahópum“

Héraðsbúinn fyrrverandi Ingvi Þór Georgsson stendur í ströngu um þessar mundir. Hann er að gefa út nýtt íslenskt blekkingarspil sem heitir Lortur í Lauginni. Hann stendur fyrir Karolina Fund söfnun til að fjármagna spilið.


Ingvi segir að spilið gerist í sundlauginni á Egilsstöðum og markmið þess sé að háfa burt lort (kúk) sem óprúttnir aðilar hafi komið fyrir í sundlauginni. „Vandamálið er að tveir leikmenn af fimm eru komnir í laugina til að villa um fyrir hinum og því er það þrautinni þyngra að finna hvar skal háfa burt lortinn þegar þú veist ekki hverjum þú getur treyst,“ segir Ingvi.

Fæddist í bústað
Hann segist hafa verið að spila með vinum sínum í bústaðarferð þegar hann fékk hugmyndina að spilinu. „Ég var yfir mig hrifinn af nokkrum blekkingarleikjum sem við spiluðum látlaust þá helgina en það fór í taugarnar á mér að fólk datt úr leik í hverri umferð og ég var reglulega kosinn snemma út,“ segir Ingvi glottandi.

Hann tekur einnig fram að hann hafi ekki tengt við karakterana þar sem þeir hafi verið yfirnáttúrulegar persónur. „Mig langaði að búa til spil sem væri íslenskt, þar sem enginn þyrfti að deyja, mætti vera pínu kómískt og hefði eiginleika sem mér fannst að hægt væri að byggja ofan á; eitthvað sem mér fannst vanta í öðrum blekkingarleikjum,“ útskýrir Ingvi.

Hinar fullkomnu aðstæður
Ingvi hugsaði í fyrstu til víkinga, þjóðhátíðar, Íslendingasagna og fleira sem honum fannst vera séríslenskt. Það var svo í sundi á leiðinni heim úr bústaðnum sem honum fannst hann ekki geta fundið betri aðstæður fyrir íslenskt borðspil.

„Ég komst svo í samband við hönnuð og sendi henni hugmyndir að karakterum sem væru íslenskar steríótýpur. Ég vil taka það fram að engir karakterar eru byggðir á neinni raunverulegri persónu nema kúkalabbinn, það er litli bróðir minn,“ segir Ingvi.

Hins vegar leyfði hann þremur aðilum sem keyptu í verkefninu í gegnum Karolina Fund að koma með hugmyndir að síðustu 2-3 karakterunum og verða þeir tilbúnir fyrir fyrsta prent. Einn af þeim sem keypti spilið vildi sjálfur hafa sjálfan sig sem óþolandi týpu sem sumir kannast kannski við úr heitapottinum.

Næstu skref
Á fyrstu dögum söfnunarinnar hafa rúmlega 200 spil verið seld. Þau sem kaupa spilið í gegnum Karolina fund verða þau einu sem fá það í hendurnar fyrir næstkomandi jól. Það verður því takmarkað upplegg sem berst til landsins fyrst. Hann segist vilja koma spilinu á sem flesta hér á landi áður en hann fer að huga að erlendum markaði. Þó hafa aðilar frá Noregi og nokkrum fylkjum í Bandaríkjunum sýnt áhuga og pantað prufuspil.

„Fyrsta pöntun erlendis kom frá lítilli búð í Boston. Svo vonandi verður hægt að fara að huga að því að selja það á ensku fljótlega en nafnið er tilbúið, Pool Pooper. Fyrst og síðast þá fór ég af stað til að búa til leik sem hefur húmor og skemmtir fjölskyldum, vinum og spilahópum og vona innilega að það hafist,“ segir Ingvi að lokum.

 

Ingvi þór með spilið sitt. Myndin er aðsend

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.